Leita í fréttum mbl.is

Búhyggindi ráðherrans á Bakka

Ég er einn þeirra sem batt afar miklar vonir við sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins en með því gætu ferskir vindar leikið um feyskna málaflokkana sem sérstaklega veitir ekki af við stjórn fiskveiða.

Flestum ber saman um að afar illa hafi verið haldið á málum á umliðnum árum, s.s. niðurskurður aflaheimilda og úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er órækur vitnisburður um.

Nýlega hefur sjávarútvegráðherra látið hafa eftir sér að hann hafi mikið velt vöngum um hvort hann ætti að skera aflaheimildir þorsks niður um 22% eða þá skera niður aflaheimildir um 35% en hann tók þá óábyrgu afstöðu að leyfa 35% minni veiðar á þessu ári en því síðasta.

Í viðtali í Fréttablaðinu þann 10. febrúar sagði hann ástæðuna fyrir svo grófum niðurskurði vera þá að ef ekki hefði verið tekið svo stórt skerf niður á við væri hætta á að það þyrfti að skera niður aflaheimildir enn og aftur á því næsta.

Sjávarútvegsráðherra virðist trúa þeim kenningum að ef við drögum úr eða jafnvel hættum veiðum á þorski fari að byggjast upp einhver gríðarlegur lífmassi af þorski sem muni síðan gefa af sér hlutfallslega enn stærri lífmassa sem loksins verði hægt að veiða úr.

Þessar kenningar um að veiða minna til að veiða meira seinna hafa ekki gengið upp hér við Íslandsstrendur sl. áratugi og hafa í raun hvergi í heiminum gengið eftir. 

Í síðustu ástandsskýrslu Hafró kemur fram á bls. 20 að meðalþyngd flestra aldursflokka þorsks er í eða við sögulegt lágmark, og í rannsóknum á áti hrefnunnar má leiða að því líkum að hún éti allt að tvöfalt meira af þorski en íslenskum útgerðum er leyft að veiða í ár.

Hvað myndi bóndinn gera? Varla færi hann að fjölga gripum á afrétt ef þeir héldu ekki eðlilegum holdum og hvað þá að ætla að geyma þá til langframa á beitilöndum þar sem stór hluti verður rándýrum að bráð.

Nú er að vona að ráðunautar í landbúnaðarráðuneytinu sýni nýjum húsbónda að ekki gengur að halda áfram með búskap sem þennan sem er líkastur því sem bræðurnir á Bakka ráku hér norðanlands forðum daga.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.


Bloggfærslur 21. febrúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband