Leita í fréttum mbl.is

Getur Samfylkingin reiknað barn í konu?

Samfylkingin fer mikinn í útreikningum sínum á því hvað hægt er að fá fyrir að leigja út 12.000 tonna byggðakvóta. Fyrir þessi 12.000 tonn telur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að hægt sé að fá heila 2 milljarða. Þá er líklegast reiknað með að kílóið af þorski sé leigt út á um 170 krónur. Samkvæmt Verðlagsstofu skiptaverðs var vegið meðalverð alls þorskaflans tæpar 180 krónur á kíló þannig að það sem situr eftir þegar búið er að borga leigu eru heilar 10 krónur á kíló til að standa undir rekstri við útgerðina og borga sjómönnum laun.

Með þessum útreikningum væri hægt að leigja allan þorskafla á Íslandsmiðum fyrir um 22 milljarða króna. Virði hans er samkvæmt opinberri stofnun 23,4 milljarðar þannig að það sem eftir situr er ekki há upphæð.

Þessar tölur sem Samfylkingin notar til viðmiðunar eru það viðmiðunarverð sem leiguliðar þurfa að greiða einhverjum handhafa kvótans fyrir að fá að veiða hann, algjört jaðarverð. Útgerðir sem þurfa að greiða þetta verð lifa alls ekki af venjulegum þorskveiðum, heldur þarf að stefna markvisst að því að veiða stærri fisk sem gefur þá hærra verð en meðalverðið segir til um og veiða ýsu í meira mæli þar sem leiguverð er mun lægra og gefur þá útgerðinni eitthvert lítilræði í aðra hönd.

Það er vonandi að Samfylkingin komi sér niður úr fílabeinsturninum, fari betur yfir útreikninga sína og átti sig á því hvers konar vitleysa er í gangi í sjávarútvegi landsmanna.

Þessir útreikningar Samfylkingarinnar minna núna óneitanlega á útreikninga Sölva Helgasonar sem fór mikinn og reiknaði m.a. tvíbura í eina afríkanska og var annað barnið hvítt og hitt svart. Nú reiknar Samfylkingin tugi ef ekki hundruð milljóna í hvert og eitt sjávarþorp landsmanna.


mbl.is Segir tímabært að endurskoða byggðakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband