Leita í fréttum mbl.is

Síðbúið svar til Vilhjálms Jónssonar sjómanns

Vilhjálmur Jónsson beindi til mín eftirfarandi greinargóðum spurningum fyrr í mánuðinum sem mér láðist að svara og nú mun ég reyna að bæta úr því:

1) Frjálslyndir tala fyrir því að taka frá sérstakar úthlutanir á tugþúsundum tonna af bolfiski. Mig langar að heyra, nokkuð ítarlega, hvernig staðið yrði að skiptingu þessarra veiðiheimilda og hverjir kæmu þar að máli?

2) Núverandi kvótakerfi er staðreynd, allavega í bili. Brottkast er líka staðreynd sem ráðamenn leiða hjá sér. Einhverjar tillögur um að ná þeim fiski í land til vinnslu, t.d. á þessu fiskveiðaári?

3) Hefur þú eitthvert álit á þeirri vélvæðingu í línuveiðum sem átt hefur sér stað undanfarin ár? Á mannamáli, hvað eru allir þessir önglar að drepa á grunnslóð þegar stórir sem smáir vélabátar eru með línu í sjó allan sólarhringinn.

Ég vil svara þessum spurningum með því að vísa beint í ræðu Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, sem hann flutti á Laugarvatni í fyrrasumar þar sem hann fer nokkuð nákvæmlega yfir hugmyndir sínar, hvernig best sé að komast út úr núverandi ógöngum við stjórn fiskveiða. Fjölmiðlar, s.s. DV, sneiddu hjá því að taka til umfjöllunar meginmál ræðunnar sem var skynsamlegri og réttlátari stjórn fiskveiða og reyndu í stað þess að búa til eitthvert rasistatal úr umræðu um stjórn fiskveiða og fyrirsjáanlegum þrengingum þjóðarbúsins. Hér að neðan er  bútur úr ræðu Guðjóns Arnars sem svarar ágætlega spurningum 1 og 2 en hvað varðar spurningu 3 hef ég furðað mig á hvernig kerfið hefur hvatt til þess að smíðaðir séu bátar sem líta út eins og skókassar. Ég hef hins vegar ekki miklar áhyggjur af því að of mikið sé veitt eins og fram hefur komið:

Í vikunni kom enn ein svartnættisspáin frá Hafró um að lítið væri af þorski á Íslandsmiðum. Þessi  framsetning eftir mikla þorskgengd á alla veiðislóð á síðastliðinni vertíð er í engu samræmi við það sem þeir, sem fiskveiðarnar stunda, segja af sinni reynslu á þessu ári. Margir skipstjórar við botnfiskveiðar hafa lýst því frá mismunandi veiðislóð allt í kringum land, að mikið af þorski væri á miðum þeirra. Margir skipstjórar hafa einnig verið á flótta undan þorski vegna lítils kvóta.

Leyfður þorskafl stjórnvalda er nú 130 þúsund tonn. Þetta er minni afli en verið hefur síðstliðin 98 ár, ef undan eru skilin fyrri heimsstyrjaldarárin. Þetta er nú sá „árangur“ sem kvótakerfi með frjálsu framsali og leigukvótaokri hefur fært okkur Íslendingum eftir að við náðum þeim áfanga að sitja einir að veiðunum og reyna að stjórna sjálfir með kvótakerfi í aldarfjórðung.

Nú þarf að segja stopp. Setjum á jafnstöðuafla, 220 þúsund tonna þorskveiði árlega næstu þrjú árin. Metum síðan árangurinn. Ég spái því að hann verði betri en það sem við höfum gert frá 1984 með kvótabraskkerfinu.

Eftirfarandi verði nú gert næstu þrjú fiskveiðiár.

- Öll leiga og sala kvóta milli útgerða verði stöðvuð frá og með næstu áramótum. Sett verði lög um það að aðeins ríki og sveitarfélög megi leigja kvóta til útgerðar. Útgerð megi færa óveiddan kvóta milli fiskveiðiára eftir nánari reglum.

- Næstu þrjú fiskveiðiár verði þorskaflinn föst stærð, eða 220 þúsund tonn hvert ár. Undirmálsþorskur verði að tveimur þriðju utan kvóta til þess að stöðva brottkast smáþorsks úr afla og fá á land rétta árgangastærð og samsetningu ungfisks.

- Á hverju þessara þriggja ára verði 150 þúsund tonn í aflahlutdeildarkerfinu hvert ár. 25 þúsund tonn verði í byggðapotti næstu tvö ár og síðan 10 þúsund tonn, þriðja árið.

- Línuívilnun verði fimm þúsund tonn öll þrjú árin. 40 þúsund tonn af þorski verði boðin upp af ríkissjóði og sveitarfélögum þannig:

· 5000 tonn á togara litla og stóra.

· 5000 tonn á snurvoða- og netabáta.

· 5000 tonn á línubáta. Til helminga á véla- og landbeitta línu.

· 5000 tonn á handfærabáta undir 30 brúttótonn að stærð.

· 20.000 tonn til byggðarlaga. Boðin fram sem leigukvóti með forgang til þeirra sem mest hafa leigt hlutfallslega annarsvegar og þeirra sem hæst verð greiddu. Þessar tekjur renni til viðkomandi sveitarsjóða. Eftir tvö ár stækkar þessi pottur um 15 þúsund tonn, í 35 þúsund tonn.

Ég lagfærði uppsetninguna en breytti engu efnislega.


,,Spyrjið manninn minn"

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur fullyrt að henni komi fjármál eiginmannsins ekkert við og hefur talið sig fullfæra um að standa í sérstökum björgunaraðgerðum vegna bankans sem eiginmaðurinn vann hjá og einkahlutafélag í þeirra eigu átti mikil hlutabréf í. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur staðfest að hrun bankans hafi sannanlega snert fjárhag heimilisins enda var einkahlutafélagið 7 hægri - sem var stofnað í febrúar 2008 - skráð fyrir mörg hundruð milljóna króna lánum.

Eflaust geta einhverjir haft skilning á þessum málflutningi lögfræðingsins, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að hún hafi verið hæf til verksins og þurfi í engu að svara fyrir um þessa hagsmuni.

Í þessari umræðu rifjaðist upp fyrir mér að hún hélt uppi harðri málsvörn í byrjun árs 2001, í kjölfar dóms Hæstaréttar, fyrir réttmæti þess að skerða greiðslur til öryrkja vegna tekna maka, allt niður í 18.000 krónur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt fram á þetta ár krafið öryrkja landsins um að gera grein fyrir tekjum maka sinna, enda hefur flokkurinn litið á makana sem samábyrga og að þeir hefðu framfærsluskyldu hvor gagnvart öðrum.

Það er hlálegt að ráðherra sem hefur haldið uppi þvílíkum málflutningi og þvílíkri stefnu í gegnum árin bjóði almenningi upp á að hundruða milljóna hagsmunir eiginmannsins komi henni vart við á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn að standa í bréfaskiptum við Hæstarétt til að geta haldið áfram að klípa einhverja þúsundkalla af öryrkjum landsins.


Bloggfærslur 29. desember 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband