Leita í fréttum mbl.is

Einbeittur spillingarvilji Samfylkingarinnar

Fréttir dagsins bera með sér að Samfylkingin sé að fella niður skuldir hjá ríkum og gefa þær fátækum eins og Egill Helgason orðaði það svo skemmtilega þegar uppvíst varð að jafnaðarmannaflokkurinn er að aflétta skuldum hjá Milestone og hækka skatta, loka fyrir innritun nýnema í háskólum, hækka komugjöld hjá sjúklingum og almennt skerða lífsgæði almennings til framtíðar. Þetta og meira til er til þess að eigendur fyrirtækjanna geti eins og ekkert hafi í skorist haldið óbreyttum rekstri áfram.

Það var ekki mikill kraftur í kvöld í umfjöllun um þessi mál í sjónvarpsstöðvum landsmanna, í fréttatímunum, en þó gat ég ekki betur heyrt en að fréttamennirnir segðu að skuldir sem falla á almenning vegna Icesave yrðu ekki 100 milljarðar heldur ríflega 200 milljarðar. Frá þessu var sagt eins og þetta væru hversdagsleg tíðindi. Mismunurinn samsvarar upphæð sem nemur öllum útflutningi sjávarafurða landsmanna á einu ári.

Ekki get ég álasað fréttamönnunum enda er mikil hætta á því að þeir verði samdauna og meðvirkir í rugli og óráðsíu stjórnvalda - og svo eru að koma jól og þá er skemmtilegra að segja frá einhverju eins og fyrirhuguðum olíugróða Össurar Skarphéðinssonar á þriðja áratug aldarinnar.

Sigmundur Ernir ákvað að gera spillinguna að umtalsefni í Mannamáli kvöldsins og bauð í þáttinn til sín Óla Birni Kárasyni blaðamanni, fyrrum ritstjóra DV, og Bjarna Benediktssyni sem nýverið lét af stjórnarformennsku í N1 og þekkir því viðskiptalífið náið af eigin raun. Ekki vildi Bjarni meina að það væri tímabært að kveða upp úr með það hvers vegna hlutirnir hefðu farið úr böndunum og hverjum væri um að kenna. Allt væri mjög óljóst - enda hefur engin rannsókn farið fram og svo virðist sem enginn raunverulegur áhugi sé á að rannsaka aðdragandann. Það á að setja helmingi lægri upphæð í rannsóknina en þær 350 milljónir sem fóru í almannatengslaáætlunina, hernaðarráðgjafann og allt það rugl.

Bjarni tók þó eitt skýrt fram, hann vildi gera greinarmun á venjulegum íslenskum fyrirtækjum og síðan útrásarfyrirtækjum. Ég er á því að mörg fyrirtæki hafi verið keypt með skuldsettri yfirtöku, m.a. N1, og á þeim hvíla gríðarlegar skuldir sem verða þungur baggi að bera. Mér finnst ekki hægt að undanskilja þau og þá válegu þróun sem þjóðin er að bíta úr nálinni með. 

Mér fannst samt eiginlega hámark vitleysunnar í umfjölluninni hjá Sigmundi þegar fyrrum ritstjóri DV náði að sannfæra Bjarna og Sigmund um að upphaf ógæfu Íslendinga mætti rekja beint til opinberra afskipta stjórnvalda Bandaríkjanna af húsnæðismarkaðnum. Viðmælendur voru mjög bjartsýnir á að þær aðgerðir sem stjórnin hér stæði fyrir myndi leiða landið á betri veg. Ef menn ætla að komast fram úr þessu ástandi verða þeir að vita hvar þeir eru staddir og ég hef því miður ekki orðið var við aðgerðir í samfélaginu sem væru til þess fallnar að auka tekjur þjóðarbúsins, t.d. með fiskveiðum.


mbl.is Kalla á heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband