Leita í fréttum mbl.is

Ögmundur beygir Steingrím

Steingrímur J. Sigfússon hefur lengi verið fylgismaður óréttláts kerfis í sjávarútvegi og skrifaði m.a. bók, Róið á ný mið, sem var óður til kvótakerfisins með strandveiðaívafi eins og ég hef áður getið um. Hann samþykkti á sínum tíma illræmt framsal veiðiheimilda sem valdið hefur ómældri byggðaröskun, en skýringin á því má vera að hann átti einhvern tímann lítinn hlut í útgerðarfyrirtæki fyrir norðan þar sem menn töldu að sala á óveiddum fiski í hafinu væri framfaraskref. Það snerist fljótlega upp í andhverfu sína, einmitt á norðausturhorni landsins, þannig að Steingrímur greiddi byggðunum í Norður-Þingeyjarsýslu hvað þyngstu höggin sem þær hafa orðið fyrir með atkvæði sínu og málflutningi á Alþingi. 

Fyrir 10 árum nýtti hann ekki tækifærið sem Valdimarsdómurinn gaf til að vinda ofan af kvótakerfinu heldur gerðist sekur um að halda uppi ruglanda í málinu. Stjórnvöld sneru út úr dómnum með þeim afleiðingum að sjómenn sem brotið var á leituðu réttlætis hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna eftir að hafa þvælst allan þann tíma um réttarkerfið hér og mannréttindanefndin úrskurðaði kerfið óréttlátt fyrir ári.

Lesendur síðunnar hafa eflaust tekið eftir því að vinstri grænir undir forystu Steingríms J. Sigfússonar hafa ekki beitt sér gegn mannréttindabrotunum. Málflutningur Atla Gíslasonar og Steingríms J. Sigfússonar verður oft þvælinn þegar talið berst að sjávarútvegsmálum, s.s. þegar rætt er um réttlæti og jafnræði, og þeir reyna að beina talinu að vistvænum veiðum og fara í alls kyns útúrdúra um atvinnuskapandi verkefni fyrir konur þegar grundvöllur kerfisins er til umræðu.

Það hefur helst verið von í Ögmundi Jónassyni og nú er að vona að hann nái að sveigja gamla Sám frá Gunnarsstöðum. Af Vikulokunum í morgun mátti manni skiljast að Ögmundur væri kominn langleiðina með að venja hann.


Bloggfærslur 20. desember 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband