Leita í fréttum mbl.is

Ferðafélagarnir Bjöggi og Baldur flækja málin

Björgvin Sigurðsson hefur gengið rösklega fram við rannsókn bankahrunsins, velt við hverjum steini og spurt spurninga þrotlaust af því að hann ann sér ekki hvíldar. Þrátt fyrir mikla leit í öllu kerfinu, hátt og lágt, í 10 vikur hefur hann ekki fundið nokkurn sem ætti að sæta ábyrgð, ekki einn mann.

Birna, vinkona hans í Glitni, reyndist vammlaus með öllu. 180 milljóna lánið fór aldrei í gegn þegar betur var að gáð en það var ekki henni að kenna.

KPMG sýndi gott frumkvæði og sagði sig frá málinu þegar óprúttnir aðilar höfðu gert vinnu fyrirtækisins tortryggilega og menn í viðskiptalífinu telja maklegt að það fái verðlaun, verði e.t.v. viðskiptamenn ársins, fyrir að standa vörð um trúverðugleika lands og þjóðar.

Það verður örugglega hart barist um verðlaunin, fleiri hafa verið nefndir til sögunnar og einn sterkasti kandídatinn er enginn annar en ráðuneytisstjórinn Baldur Guðlaugsson sem gerði feiknargóðan díl í kjölfar heimsóknar í Bretaveldi með vini sínum Björgvin G. Sigurðssyni. Reyndar finnst mér sem þeim félögum sé aðeins farið að förlast varðandi rannsókn á meintum skattsvikum í Lúxemborg. Baldur Guðlaugsson viðskiptamaður ver í Morgunblaðinu í dag þá ákvörðun skilanefndar að leyna skattrannsóknarstjóra upplýsingum um möguleg skattsvik. Björgvin segist vilja fá upplýsingar en flækir svo málið og vill spyrja Lúxemborgara hvort hægt sé að fá upplýsingarnar úr íslenska bankanum sem íslenska ríkið stýrir og á.

Hvaða ríki í heiminum sem stæði frammi fyrir grunsemdum um mestu efnahagsbrot sögunnar, nánast þjóðargjaldþroti, myndi spyrja kurteislega hvort stjórnvöld fengju gögn sem eru á forræði ríkisstarfsmanna og fulltrúa stjórnvalda þó að fyrirtækið sé niðurkomið í öðru landi? Vel að merkja, gögnin varða íslenska ríkisborgara.


Bloggfærslur 10. desember 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband