Leita í fréttum mbl.is

Í hverju er Samfylkingin lent? Icesave í Hollandi var stofnað í vor

Samfylkingin var stofnuð með það að markmiði að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú eru breyttir tímar og Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin eiga í nánu samstarfi með hræðilegum afleiðingum fyrir Íslendinga. Samfylkingin veitti í stjórnarandstöðu stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins á köflum eitthvert aðhald. Samfylkingin gat beitt sér hart í málum sem snertu fjölmiðla en minna fór fyrir andstöðu við einkavinavæðingu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hvað þá mannréttindabrotum stjórnvalda á sjómönnum. Mögulega hefur leiðtogi Samfylkingarinnar talið það betur fallið til vinsælda að hafa fjölmiðla með sér og svo er hitt, það að taka á spillingunni í kringum ráðstöfun bankanna gat verið of viðkvæmt fyrir mögulega samstarfsaðila á komandi kjörtímabilum.

Nú er flokkurinn kominn í þá ömurlegu stöðu að verja vítaverða stjórnahætti liðinna ára og bæta jafnvel gráu ofan á svart í þeim efnum. Það hefur Samfylkingin gert með því að taka þátt í aðgerðarleysi, flytja þjóðinni hálfsannleik og jafnvel skrök um stöðu mála.

Hver hefur ekki heyrt hvern ráðherra Samfylkingarinnar á fætur öðrum enduróma bergmálið úr Valhöll - það ber enginn einn ábyrgð á stöðu mála - stöndum saman - kreppan kom að utan??

Bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa haldið því fram á síðustu dögum að hægt hefði verið að stofna útibú Icesave á grundvelli einfaldrar tilkynningar og þá hafa þeir vísað til EES-samningsins. Þetta er ekki rétt þar sem Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús á EES enda gerir tilskipun EES ráð fyrir því að hægt sé að stofna til útibús á EES-svæðinu. Það er tekið sérstaklega fram í 36. gr. laga nr. 161/2002:

Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.

Það er ömurlegt fyrir skattgreiðendur og sömuleiðis Íslendinga framtíðarinnar að vita til þess að útibú Landsbankans var stofnað í vor þegar nokkuð ljóst var orðið að á brattann væri að sækja fyrir íslensku bankana. Frétt um stofnun hollenska útibúsins birtist á bls. 7 í afkomutilkynningu Landsbankans frá 29. júlí 2008.


Bloggfærslur 25. október 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband