Leita í fréttum mbl.is

Aumkunarverður viðskiptaráðherra

Það var dapurlegt að horfa upp á Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra í Kastljósinu í kvöld. Björgvin er góður drengur sem vill láta gott af sér leiða og sýna af sér ákveðna snerpu eins og þegar hann setti bráðabirgðalög um rafföng á Keflavíkurflugvelli. Hvers vegna segir hann þjóðinni ekki satt? Hann lætur líta út sem eitthvað hafi breyst frá 15. september eins og að lausafjárkreppa hafi skollið skyndilega á sem hafi orðið til þess að allir bankarnir fóru á hausinn á tveimur vikum.

Hver sá sem veltir þessum hlutum eitthvað fyrir sér veit betur. Það þurfti engan speking til að átta sig á að helstu máttarstólpar Glitnis töpuðu hátt í 70 milljörðum á FL Group og þar að auki gekk rekstur fjölda fyrirtækja sem tengdust bönkunum, s.s. Eimskipafélagið, afar illa og voru skuldsett langt út fyrir skynsamleg mörk. Hið sama má segja um veð sem voru tekin í sjávarútvegsfyrirtækjum, staðan í íslensku viðskiptalífi var orðin gríðarlega þröng. Björgvin á náttúrlega að segja eins og er, hann hafi verið að klóra í bakkann í þessum viðtölum og skrifum á heimsíðunni þar sem hann taldi að íslensku bankarnir stæðu einstaklega vel og að einhverjir útlendingr væru í rógsherferð.

Það má segja að með þessum digurbarkalegu yfirlýsingum hafi verið reynt að berja í brestina en skynsamlegra hefði verið fyrir stjórnvöld hefðu strax hugað að útgönguleið og reynt að tryggja hag íslensks almennings.

Núna þarf þjóðin að gera upp við sig hvort hún treysti fólkinu sem svaf á verðinum til að hreinsa upp eftir sjálft sig. Það blasa við möguleikar til að gera betur, spara í utanríkisþjónustunni og ná í meiri gjaldeyri úr hafinu.


Kúkurinn flýtur alltaf upp á endanum, eins og Sverrir Stormsker gæti hafa sagt

Nú er það staðfest að það var ekki símtal Árna Matt sem hleypti öllu í bál og brand, miklu meiri líkur eru á að villandi yfirlýsingar viðskiptaráðherra í viðræðum við Breta í byrjun september hafi tendrað bálið. Það skiptir kannski ekki öllu máli í stöðunni, nú blasir við að stjórnvöld þurfa að upplýsa þjóðina um stöðu mála og tryggja gagnsætt ferli við rannsókn svo að það upplýsist hvort menn hafi skotið undan eignum á síðustu mínútunum. Frysta ætti eigur auðmanna ef minnsti vafi leikur á að þeir hafi farið að reglum. Venjulegt ráðdeildarsamt launafólk sem gerði ekkert annað af sér en að treysta peningamarkaðssjóðum bankanna fyrir sparifé sínu hefur orðið fyrir slíkri frystingu og verður e.t.v. alfarið fyrir tapi þeirra fjármuna á endanum. Sömuleiðis þarf að tryggja hagsmuni almennings og atvinnulífsins.

Besta leiðin til þess er að ná í fleiri evrur úr hafinu.

Þorskveiðin núna er þriðjungur til fjórðungur af því sem hún var til jafnaðar áður en Bretum var ýtt út úr landhelginni. Hægur leikur er því að bæta þar í. Með því mætti líka koma til móts við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Mjög vafasamt er að fara í skattahækkanir eins og boðað er því að greiðslubyrði heimilanna hefur aukist. Umtalsverðar skattahækkanir munu miklu frekar keyra heimilin um koll en að bjarga þeim fyrir horn. Tímabundið afnám verðtryggingar og aukinn sveigjanleiki við afborganir af lánum er líka til þess fallið að hjálpa heimilunum að rétta úr kútnum. Ófarir þeirra sem verða illa úti í fyrstu atrennu eru ekkert einkamál þeirra. Hætt er við því að efnahagskeðjan slitni, en engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.


mbl.is Yfirlýsing viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband