Leita í fréttum mbl.is

Vakti Geir upp draug?

Í röðum sjálfstæðismanna eru efasemdir um ríkisstjórnarsamstarfið og mörgum þeirra þykir sem Geir Haarde hafi styrkt stöðu Samfylkingarinnar og vakið upp draug - eða jafnvel Grýlu sjálfa - sem Davíð hafði kveðið niður. Óánægja kraumar einnig undir hjá gömlum krötum, líka þeim sem seldi mér flugelda á gamlársdag og sagðist hafa starfað lengi innan Alþýðuflokksins.

Hið sama má segja um gamla góða kratann Björgvin Guðmundsson sem skrifar grein í Morgunblaðið í dag og bendir á að Samfylkingin reynir að sniðganga mesta ranglæti íslensks þjóðfélags sem er kvótakerfið.

Það er auðvitað absúrd að flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku skuli forðast umræðu um gargandi geðveikt fiskveiðistjórnunarkerfi. Það er eins og að það sé komið með sitt sjálfstæða líf, eigin kennitölu og farið að halda heimili sem stjórnvöldum kemur ekki við nema þá í formi einhverra þversagnakenndra mótvægisaðgerða. Hvernig væri nú að flokkur sem kennir sig við umræðustjórnmál tæki grundvöll kerfisins til umræðu?

Össur fiskalíffræðingur virðist skynja undiröldu sem er í flokkunum og reynir að berja í brestina með því að klifa stöðugt á árangri stjórnarflokkanna í einhverjum skoðanakönnunum. Ég tel að þann árangur flokkanna megi miklu frekar rekja til ómarkvissrar stjórnarandstöðu þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa eytt púðri hverjir á aðra í stað þess að veita ríkisstjórninni málefnalegt aðhald.

Það er hætt við að það flæði hratt undan ríkisstjórninni ef fleiri stuðningsmenn verða þess áskynja sem Björgvin Guðmundsson bendir á í grein sinni í Mogganum í dag, að Samfylkingin framkvæmi ekki þau stefnumið sín sem hún bar undir kjósendur síðasta vor.


Bloggfærslur 3. janúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband