Leita í fréttum mbl.is

Hverju var fólkið að mótmæla í ráðhúsinu?

Í dag varð mér litið á beina útsendingu frá fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Það fór ekki á milli mála að fólkinu sem vermdi áhorfendapallana var mjög heitt í hamsi. Æsingurinn var þvílíkur að engu mátti muna að stjórnendur mótmælanna, þau Dagur Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir, gætu ekki hamið liðið enda þurftu þau einnig að verja tíma sínum í að hugga tárvot einn traustasta bandamann sinn, sjálfan Björn Inga sem hafði vistaskipti á fundinum.

Það er verðugt verkefni að reyna að átta sig á því hvers vegna það veldur svo miklum æsingi að meirihluti sem komið var upp á hlaupum skuli hverfa með jafn miklum hraða.

Varla hefur æsingurinn stafað af því að fólkið hafi óttast að ekkert yrði úr einhverjum vonum um að ákveðin málefni næðu fram að ganga með breyttum meirihluta þar sem fráfarandi meirihluti hafði ekki gert neinn samning um nokkurt málefni.

Sömuleiðis var málflutningur oddvita fráfarandi meirihluta oft og tíðum mjög óskýr og erfitt að henda reiður á stefnu flokkanna í veigamiklum málum, s.s. friðun húsa á Laugavegi og flugvallarmáli.  Annað hvort voru mál ekki á dagskrá eða það átti að bíða eftir einhverju.

Ekki voru helstu verk fráfarandi meirihluta öll til vinsælda fallin, hvað þá í átt við þau loforð sem hann gaf kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar, sbr. hækkun leikskólagjalda um síðustu mánaðamót og þyngri álögur á fasteignaeigendur borgarinnar.

Örugglega er það ekki framganga fráfarandi flokka í REI-málinu enda hafa þeir saltað málið í nefnd sem enn hefur ekki veitt nokkrar upplýsingar. Ekki hefur það aukið trúverðugleika flokkanna í orkumálum að saman og í mikilli sátt skipuðu fráfarandi meirihlutaflokkar fyrrum formann Framsóknarflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur en sá hinn sami hratt af stað óvissunni með orkulindir þjóðarinnar með sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.

Einhvern tímann fræddi mig vís Húnvetningur um að eftir því sem deilur snerust minna um málefni og þeim mun meira um persónur hætti þeim til að verða illvígari, t.d. í prestakosningum. Ætli það geti verið skýringin á æsingnum, þ.e. að hann snýst ekki um neitt málefni?

Nú er að vona að fráfarandi meirihluta takist að setja málefnin á dagskrá en það hefur reynst þeim erfitt síðustu mánuðina. 


Bloggfærslur 25. janúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband