Leita í fréttum mbl.is

Mikill maður fallinn frá

Bobby Fischer setti mark sitt á skáklíf heimsins, og sömuleiðis íslenskt þjóðlíf, síðustu fjóra áratugi, allt frá því að heimsmeistaramótið var haldið hér árið 1972, í skákeinvígi aldarinnar í Laugardalshöll. Fischer lenti í ótrúlegum væringum gagnvart bandarískum stjórnvöldum vegna brota á viðskiptabanni þegar hann tefldi í fyrrum Júgóslavíu. Þær hremmingar skoluðu honum hingað til Íslands eftir langa dvöl í japönskum fangelsum.

Ég kynntist kappanum aðeins persónulega þegar ég fiskaði hann upp þar sem hann sat á bekk fyrir utan Kjörgarð á Laugaveginum í sumar sem leið. Ég tók hann tali en þar sat meistarinn klæddur til útiveru með vasaútvarp, sem hann hlýddi á BBC í, og þrjá farsíma. Ég bauð honum að borða með mér kjúkling úr Melabúðinni meðan við sátum og ræddum landsins gagn og nauðsynjar og heimsstjórnmálin. Það er óhætt að segja að það samtal hafi tekið á sig skringilegt flug og dýfur og ég, sveitamaðurinn Sigurjón, átti fullt í fangi með að fylgja meistaranum eftir. Honum var mjög umhugað um umhverfismál og bandarísk stjórnvöld sem hann taldi sitja á launráðum við sig.

Við vinirnir, við Valgeir Tómas Sigurðsson, komum því til leiðar að Fischer fór í lystireisu í sumar með Valgeiri norður til Siglufjarðar þar sem Fischer og japönsk vinkona hans áttu góðar stundir í nokkra daga. Hann gat verið skemmtilega kenjóttur og það sem honum þótti hvað skemmtilegast á Siglufirði og taka öðru fram var hafragrauturinn sem hann gat látið ofan í sig í ómældu magni.

Ísland er fátækara land þegar Fischer er fallinn frá. Við getum verið stolt af því að hafa tekið vel á móti honum og létt honum síðustu æviárin. Vinir hans sem komu því til leiðar að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt eiga þökk skilda.


mbl.is Skákmenn minnast Fischers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband