Leita í fréttum mbl.is

Opnir milljarðatékkar í allar áttir

Í sumar hafa kaupin á Grímseyjarferjunni verið tekin sem dæmi um subbuskap valdhafa sem taka til sín fé sem þeir hafa ekki heimild fyrir í lögum.

Það er ekki síður umhugsunarvert að nokkrum línum ofar í sömu fjárlögum, frá árinu 2006 og 2007, þar sem heimildin var veitt til kaupa á nýrri Grímseyjarferju var önnur heimild sem lætur ekki mikið yfir sér og hljóðar svo:

„7.7 Að greiða hlut ríkisins í undirbúningskostnaði Austurhafnar TR sem stofnað var á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg um rekstur og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.“

Miðað við þrönga túlkun Ríkisendurskoðunar á sambærilegu ákvæði er varðar Grímseyjarferjuna er af og frá að það geti talist löglegt að greiða fjármuni í annað en takmarkaðan kostnað sem hlýst af undirbúningi verksins. Samt sem áður er verið að greiða milljarða úr ríkissjóði til byggingar tónlistarhúss eingöngu á grundvelli þessa heimildarákvæðis. Hér er ekki um neinar baunir að ræða þar sem áætlað er að heildarkostnaður hins opinbera til verksins verði sambærilegur þeirri fjárhæð sem á að nota í að grafa ein Héðinsfjarðargöng.

Í umræðu um ákvæðið tók varaformaður fjárlaganefndar það sérstaklega fram að umrædd heimild væri eingöngu til að greiða takmarkaðan undirbúningskostnað enda sagðist hann hvorki muna áætlun kostnaðar við byggingu tónlistarhúss né kostnaðarskiptingu ríkis og Reykjavíkurborgar.

Það verður að teljast víst að flestir þeir sem greiddu atkvæði með því að umrædd heimild væri veitt og tóku framangreind orð varaformanns fjárlaganefndar trúanleg höfðu ekki hugmynd um að með áðurnefndri samþykkt væri verið að opna á opinn tékka menntamálaráðherra á ríkissjóð á grundvelli einhvers samnings um byggingu tónlistarhúss sem þar að auki var hálfgerður leynisamningur. Þeir aðilar sem töldu að óeðlilega hefði verið staðið að samningsgerðinni þurftu að leita ásjár úrskurðarnefndar um upplýsingamál og í kjölfarið fengu þeir að sjá hluta af samningnum.

Það voru helst einstaka þingmenn Samfylkingarinnar sem höfðu varann á sér gagnvart umræddri afgreiðslu og var talið að um væri að ræða mögulega galopinn tékka.

Það er ekki hægt annað en að dást að sjálfstæðismönnum sem setja nýja samstarfsmenn í nýrri ríkisstjórn Geirs Haarde í að drepa á dreif umræðu um vafasama meðferð á opinberum fjármunum sem þeir gagnrýndu harðlega fyrir nokkrum misserum.

Það gerir Samfylkingin með því að beina spjótum sínum að einstaka nafngreindum verkfræðingi og halda kósífundi í nefndum þingsins þar sem lopinn er teygður í þeirri von að kastljós fjölmiðla og og áhugi almennings dofni.

Nú er að vona að áætlunargerð vegna tónlistarhússins gangi betur upp en endurbygging.


Bloggfærslur 6. september 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband