Leita í fréttum mbl.is

Ríkisstjórn Íslands er búin að missa trú á íslensku krónuna

Ég hlýddi á viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Íslands, Björgvin G. Sigurðsson, í fréttaþættinum Ísland í dag á Stöð tvö í kvöld. Þar lýsti hann yfir vantrú á íslenska gjaldmiðlinum og taldi hann ekki eiga framtíðina fyrir sér. Þessi orðræða og afstaða ráðherra í ríkisstjórn Íslands hlýtur að vera afar óheppileg nú þegar gjaldmiðillinn sveiflast um heilu prósentin frá degi til dags. Yfirlýsing sem þessi á viðkvæmum tímapunkti er alls ekki til þess fallin að auka tiltrú og stöðugleika í samfélaginu.

Seðlabankinn hefur haft það hlutverk að halda aftur af verðbólgu með því að hækka vexti og sporna gegn ákvörðunum stjórnvalda á umliðnum misserum sem hafa sumar hverjar gengið í þveröfuga átt og aukið á þensluna, s.s. með að auka útgjöld ríkisins meðan þensla ríkir. Að kenna krónunni um ójafnvægið í íslensku efnahagslífi er barnalegt, hún er bara verkfæri. Árinni kennir illur ræðari.

Í lokin er rétt að huga að því að taka upp evru á Íslandi en það verður að gera með öðrum hætti og í öðru efnahagsumhverfi en Björgvin G. Sigurðsson leggur til. Til þess að við getum tekið upp evru þarf að ríkja stöðugleiki, verðbólga verður að vera lág og vextir sömuleiðis. Upptaka evrunnar er í sjálfu sér alls ekki leiðin til að ná fram stöðugleikanum. Það er líka betra að koma inn í myntsamstarf ríkja með fullri reisn frekar en eins og flóttamenn að forðast heimatilbúinn óstöðugleika.

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum annarra og vita hvort þau eru í takt við viðbrögð fagráðherrans.

   


Bloggfærslur 21. ágúst 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband