Leita í fréttum mbl.is

Útgerðarmenn láta bjóða sér hvað sem er og stórmeistaralygi

Margt orkar tvímælis við stjórn fiskveiða, s.s. að hægt sé að færa aflakvóta landshorna á milli, eins og frá Grímsey til Vestmannaeyja og frá Grundarfirði til Austfjarða. Það sjá allir að út frá líffræðinni er þetta dauðans della, og hvað þá að trilla inni á Eyjafirði sé að taka frá togara á Halamiðum.

Nú bárust fréttir af gríðarlegri veiði við Grænland sem togari veiddi á nokkrum dögum, vel á annað þúsund tonn af þorski sem hlýtur að vera drjúgur hluti þess sem leyft er að veiða allt þetta ár. Samkvæmt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins á þessi þorskur ekki að vera til, ráðgjöf frá árinu 1993 til ársins 2007. Samkvæmt ráðgjöfinni áttu engar veiðar að fara fram á þessu árabili. Öll veiði sem samt sem áður var ekki mikil var því vel umfram ráðgjöf.

Fyrir árið 2007 var gefinn út kvóti upp á 4.875 tonn sem nú hlýtur að vera löngu uppurinn.

Þessi gríðarlegi afli og fréttir af mikilli fiskgengd við Grænland segja bara það að ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir Grænland sé röng. Það sem væri rökrétt að gera núna fyrir íslenskar hafrannsóknir væri að merkja fisk við Grænland og kanna hvort merkin skili sér á Íslandsmiðum þannig að menn þurfi ekki að þrasa um hvort grænlenskur fiskur hafi komið eða ekki. Margir sjómenn telja það hafa gerst en geta ekki sýnt fram á það. Íslenskir útgerðarmenn láta bjóða sér ráðgjöf hér heima sem byggir á sömu röngu forsendunum og ráðgjöfin við Grænland sem augljóslega er röng.

Hér virðist sem t.d. Guðmundur Kristjánsson í Brimi sem hefur yfir að ráða öflugu og stórglæsilegu skipi sætti sig við niðurskurð sem byggður er á fáránlegum forsendum, t.d. að veiða ekki fisk sem er vanhaldinn. Í stað þess að stuðla að því að ráðgjöfin sem augljóslega er röng verði tekin til gagnrýninnar endurskoðunar verja samtök útgerðarmanna stórfé í einhverja „rannsóknarstöðu“ innan HÍ þar sem Helgi Áss Grétarsson virðist hafa það verkefni að hagræða sannleikanum og framleiða stórmeistaralygi. Í ýmsu sem hann lætur frá sér er sannleikanum hagrætt svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. 


Bloggfærslur 20. ágúst 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband