Leita í fréttum mbl.is

Varaformður Samfylkingarinnar skammar Albaníu

Á dögum kaldastríðsins var til siðs að skamma Albaníu þegar það þótti nauðsynlegt að koma skilaboðunum alla leið til Kína.

Það er nokkuð ljóst á skrifum varaformanns Samfylkingarinnar að hann er mjög óánægður með stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum en honum er að verða ljóst að engu verður breytt í kvótakerfum landsmanna, hvorki til sjávar né sveita . 

Í stað þess að beina orðum sínum beint til samherja sinna í ríkisstjórninni húðskammar hann Framsókn og VG en flokkarnir virðast vera komnir í það hlutverk sem Albanía gegndi á árum áður. 

Ég get tekið undir íhaldssemi VG á mörgum sviðum en engu að síður er það mjög ósanngjarnt að varaformaðurinn láti  skammir dynja á VG vegna landbúnaðarstefnu núverandi ríkisstjórnar.  VG hefur aldrei setið í ríkisstjórn og ber því ekki nokkra ábyrgð á kvótakerfum til sjávar og sveita sem Samfylkingin ætlar sér nú að standa vörð um í nafni stöðugleika.


12. júlí - Göngudagurinn mikli að kvöldi kominn

Eitt það jákvæðasta sem Tony Blair vann að í stjórnartíð sinni var að stuðla að  því að sætta stríðandi fylkingar á Norður-Írlandi.  Ég hef fylgst með öðru auganu með norður-írskum stjórnmálum í gegnum árin eða allt frá því að ég vann sumarlangt á rannsóknarstofu í Belfast við að mæla veirusmit í kartöflugrösum.

Norður-írsk stjórnmál eru engu lík þar sem trúarbrögð og öfgar skipta gríðarlega miklu máli.  Eldklerkurinn Ian Paisley og slunginn talsmaður stjórnmálaarms hryðjuverkasamtakanna IRA, Gerry Adams, hafa leikið stórt hlutverk á sviði stjórnmálanna um áratuga skeið og nú virðist sem þessi öfl séu að slíðra sverðin.  

Það hefur þurft mikið pólitískt þor til þess að stíga skref til sátta og friðar og hafa sumir, s.s. friðarverðlaunahafi Nóbels David Trimble, þurft að færa pólitískar fórnir fyrir gæfuspor til sátta.  Öfgasamtök og stjórnmálaöfl eru ráðandi í fréttum en það hafa einnig verið starfandi hófsamiri samtök sem hafa beitt sér mjög fyrir friði, t.d. stjórnmálaflið Alliance Party sem hefur beinlínis beitt sér fyrir sáttum og blöndun samfélaga kaþólskra og mótmælenda. Ég er ekki frá því að flokkurinn hafi haft talsverð áhrif í að koma á skynsamlegri umræðu þó að hann hafi fengið mikið kjörfylgi. 

Tólfti júlí er hátíðisdagur mótmælenda þar sem þeir halda uppi á sigur á kaþólskum hersveitum fyrir liðlega 300 árum. Það er Appelsínugulareglan sem stendur fyrir göngum á Norður-Írlandi en göngumenn koma víðar að. Reglan kynnir sig sem menningarsamtök sem standa vörð um gömul og góð bresk gildi. Kaþólikkar líta margir hverjir þessar göngur hornauga og þykir sem að tilgangur þeirra sé öðrum þræði að storka og viðhalda fornum deilum. Sérstaklega á það við þegar gengið er um hverfi kaþólskra.

Tólfti júlí er hápunktur í göngutíðinni og er oft á tíðum spennuþrunginn þar sem talsverð hætta er á að það slái í brýnu á milli fylkinga og sjóði upp úr þegar á líður kvöld. 

Ég vona svo sannarlega að kvöldið og nóttin verði friðsöm þar sem nú ætti vissulega að vera lag til þess að komast frá deilum og hjaðningavígum fortíðar.


Bloggfærslur 13. júlí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband