Leita í fréttum mbl.is

Er súldin ávísun á langt sumarþing?

Í dag hef ég verið í blíðskaparveðri á Siglufirði að vitja um net en sit nú hér í stofunni á Sauðárkróki og velti fyrir mér næstu leikjum í stjórnmálalífi landsmanna. Eftir að hafa velt hlutunum fyrir mér og hlustað á orð vísra Skagfirðinga er niðurstaðan sú að sumarþingið sem nú stendur verði nokkuð langt. Ekki er meginástæðan sú að mikil ótíðindi bárust frá Hafrannsóknastofnun um helgina enda er það nokkuð reglubundinn söngur og hið sama má segja um viðbrögð Einars Kristins sem fer í marga hringi og erfitt að festa hendur á hvað hann ætlar sér.

Ég tel að aðalástæðan fyrir því að þingið muni standa lengi sé slæmt sumarveður í Reykjavík. Meðan ég starfaði sem þingmaður varð ég var við vaxandi óþol hluta þingmanna við að dvelja við fundastörf þingsins. Þessa gætti sérstaklega á vorin. Nú er um að gera fyrir Einar Sveinbjörnsson og Sigga storm að gera úttekt á þessu. Þeir hafa báðir áhuga á veðri og pólitískum vindum.


Horfum framhjá misheppnaðri talningu þarþarsíðustu kynslóðar - sýnum ábyrgð

Í forystugrein Morgunblaðsins er í dag fjallað um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það er gefið í skyn að „uppbygging“ þorskstofnsins hafi misheppnast vegna hálfkáks stjórnmálamanna við að fara eftir ráðgjöf Hafró. Þetta er misskilningur hjá leiðarhöfundi Morgunblaðsins. Á síðasta áratug hefur verið farið meira og minna eftir ráðgjöf stofnunarinnar en helstu skekkjur sem komið hafa fram eru „ofmat“ stofnunarinnar sjálfrar á þorskstofninum. Á það sérstaklega við í kringum endurmat við síðustu aldamót.

Stundum hefur þessi misheppnaða uppbygging verið skýrð út frá því hve mikið hafi verið farið umfram ráðgjöf, samanlagt áratugi aftur í tímann. Þetta er auðvitað fáheyrð vitleysa, það gengur ekki að nálgast málið frá því sjónarhorni þar sem ráðgjöfin hlýtur að miðast út frá stofnstærð hverju sinni. Þetta væri álíka og bóndi skýrði lélegar heimtur af fjalli með því að pabbi hans eða afi hefðu mistalið í fjárhúsinu.

Núna ríður á að stjórnvöld sýni ábyrgð og fari gaumgæfilega með gagnrýnum hætti yfir þessa ráðgjöf og útiloki engin sjónarmið. Margvísleg rök og vísindaleg gögn, s.s. endurheimtur á fiskmerkingum, sýna berlega að reiknilíkönin gefa niðurstöður sem stangast á við raunveruleikann.


Bloggfærslur 4. júní 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband