Leita í fréttum mbl.is

Einar Kristinn á að vita betur

Nú fyrir skömmu lauk upplýsandi Kompássþætti um svindlið í kvótakerfinu, svindl sem allir vita um sem starfa í eða þekkja með öðrum hætti til sjávarútvegsins, þ.e. að landaður afli er meiri en skráður og að í lönduðum afla eru aðrar og verðmætari tegundir en gefnar eru upp. Að auki er brottkast.

Einar Kristinn þóttist koma alveg af fjöllum þegar hann var spurður út í svindlið og svaraði hálfkindarlega að þetta væru óstaðfestar sögusagnir. Einar Kristinn á að vita betur, enda mátti hann hafa sig allan við að halda andlitinu þegar hann reyndi að gera lítið úr alvarleika málsins.

Í þættinum var stuttlega fjallað um færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið, enda eru menn í því lausir við svindl og sóun sem fylgir kvótakerfum nær undantekningarlaust. Menn reyndu þar kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd og þá komu upp nákvæmlega sömu vandamál, þ.e. brottkast og svindl, og við erum búin að glíma við árum saman, vandamál sem eru fylgifiskur kvótakerfisins í sjávarútvegi. Hér hefur verið farin sú leið að þagga niður umræðu og dæma menn, sem viðurkenna það sem flestir stunda, til hárra sektargreiðslna.

Svarið við þessu svindli sem kostar þjóðarbúið marga milljarða króna árlega er ekki að auka eftirlit og herða refsingar, heldur koma á kerfi þar sem enginn eða lítill hvati er til þess að svindla. Núverandi íslenska kvótakerfi felur í sér eftirlitskostnað - sem er vel á annað þúsund milljónir árlega - með duglegu og venjulegu fólki sem starfar í sjávarútvegi. Þeir fjármunir væru betur komnir í vöruþróun og aukin gæði.

Í Færeyjum hef ég fyrir satt að séu tveir veiðieftirlitsmenn - tveir svo að annar þeirra geti farið í sumarfrí.

Færeyskir stjórnmálamenn hafa margir notið leiðsagnar Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og ég hef sjálfur farið gaumgæfilega yfir gögn hans og kenningar. Ég sem líffræðingur get ekki séð annað en að þær kenningar séu í fyllilegu samræmi við viðtekna vistfræði og þær hafa sannarlega gengið upp í Færeyjum. Á hinn bóginn er óumdeilt að kenningar Hafró hafa alls ekki gengið upp á síðustu árum, enda ganga þær í berhögg við vísindin.

Íslendingar verða að fara að gera upp við sig hvort menn ætli að þora að ræða þessa hluti án þess að beita sleggjudómum og áróðri fyrir íslenska kvótakerfinu sem er á góðri leið með að hafa það af að lama atvinnulíf sjávarbyggðanna. Það er stutt til Færeyja eins og við í Frjálslynda flokknum höfum oftsinnis bent á og við eigum að vilja sjá möguleikana í því að breyta því sem hefur mistekist hér heima og læra af því sem er betur gert í öðrum löndum.

Það virðist vera tabú að ræða þennan vanda. Menn virðast vera í afneitun og Einar Kristinn er í því að teikna upp glansmynd sem stenst engan veginn.

Nú er verið að ræða vanda Bolungarvíkur, og borgarafundi nýlokið vestra. Í stað þess að Einar Kristinn einbeiti sér að því að sjá leiðir út úr kerfinu sem hefur engu skilað þjóðarbúinu heldur hneppt atvinnulíf Bolungarvíkur í fjötra og hvatt til svindls forðast hann að ræða þessi mál og afneitar þeim.

Hann hefur kosið sér ömurlegt hlutskipti í lífinu.

Kompás á þakkir skildar fyrir þáttinn. Ég hef oft furðað mig á hvað íslenskir fjölmiðlar hafa sýnt þessum málum lítinn áhuga. Vonandi verður núna breyting á því að þetta er vitaskuld ekki flokkspólitískt mál, heldur snýst það um framtíð Íslands.


mbl.is Atvinnumál Bolungarvíkur rædd á borgarafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferjan og fiskurinn í Grímsey - verður eitthvað að flytja?

Það er mikill hráskinnaleikur sem fram fer af hálfu stjórnarliða í umræðu um nýja ferju til Grímseyjar og nú virðist sem það eigi að kenna sveitarstjórn Grímseyjarhrepps um að kostnaður við endursmíði ferjunnar fari upp úr öllu valdi. 

Enn og aftur tekst Sjálfstæðisflokknum að klúðra endurbótum á skipakosti þjóðarinnar, s.s. varðskipum og hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Það hefði mátt ætla að stjórnvöld hefðu lært eitthvað af fyrri axarsköftum, s.s. þegar Björn Bjarnason sendi varðskipin til viðgerða til Póllands. Þegar búið var að taka saman kostnaðinn við ferðalög og ýmsan aukakostnað reyndist hann hærri en sem nam tilboði frá Slippnum hér á Akureyri.

Nú stefnir sem sagt í að endurbætur á gamalli ferju verði dýrari en að smíða nýja Grímseyjarferju sem hefði verið sniðin að þjónustu við atvinnuveg og íbúa Grímseyjar. 

Það sem skiptir þó öllu máli fyrir Grímseyinga er að það verði veigamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Forsenda fyrir áframhaldandi blómlegri byggð í Grímsey er auðvitað að það verði tryggt að það geti orðið nýliðun í sjávarútvegi og að byggðunum verði tryggður ákveðinn réttur til sjósóknar.

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt tillaga sem gekk út á að afnema byggðakvóta. Það skýtur auðvitað skökku við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komi í tugatali til Grímseyjar til að boða óbreytt kvótakerfi sem grefur örugglega undan sjávarbyggðunum og þar með talið Grímsey.

Ef kvótakerfinu verður ekki breytt er undir hælinn lagt hvort það verði einhverjir flutningar til og frá Grímsey.

Frjálslyndi flokkurinn boðar skynsamlegar breytingar á stjórn fiskveiða sem mun koma sjávarbyggðunum vel, s.s. að taka aukategundir út úr kvóta, heimila frjálsar handfæraveiðar og auka þorskafla og nota það svigrúm til þess að tryggja nýliðum aðgang að greininni. 

Það felast gríðarleg tækifæri í því að breyta núverandi kvótakerfi, ekki einungis fyrir íbúa sjárvarbyggðanna heldur landsmenn alla.


Bloggfærslur 6. maí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband