Leita í fréttum mbl.is

Morgunblaðið ruglar og bullar - Frjálslyndi flokkurinn misnotar Stöð 2!

Morgunblaðið okkar, allra landsmanna, getur stundum tekið léttgeggjaðar sveiflur og er ekkert við því að segja. Þetta er einfaldlega íslenskur veruleiki sem hefur endurspeglast í réttlætingu á olíusamráðssvindlinu, stuðningi Íslands við innrásina í Írak og skrifum blaðsins um Baugsmálið svo nokkur dæmi séu tekin. 

Nú í dag tók Morgunblaðið létt kast þegar það fann það upp hjá sér að Frjálslyndi flokkurinn hefði jafnvel misnotað fréttaskýringaþáttinn Kompás til þess að kasta rýrð á íslenska kvótakerfið.  Morgunblaðið ætti að vita að það er ekki hægt að kenna Frjálslynda flokknum einum um  óvinsældir kvótakerfisins þar sem kerfið heggur reglulega djúp skörð í byggðir landsins og skilar þjóðarbúinu á þriðja tug milljörðum króna minni verðmætum nú en útvegurinn skilaði fyrir áratug. 

Þetta er ekkert annað en bull og ómerkilegt þvaður og sýnir hversu röklausir menn eru í því að halda áfram með núverandi kvótakerfi. Tilgangur Morgunblaðsins er auðvitað sá að komast hjá því að fjalla um svindlið í sjávarútveginum sem Kompássþátturinn greindi frá og, jú, að sjálfur fiskistofustjóri játaði að svindlið væri árlega talið í milljörðum króna. 

Einn liður Morgunblaðsins í því að réttlæta kvótakerfið hefur verið að afflytja fréttir af færeyskum sjávarútvegi og fyrir þá sem ekki þekkja til mætti ætla að þar væri allt á vonarvöl. Það er ekki rétt enda voru útflutningsverðmæti sjávarfangs Færeyinga hærri á árinu 2006 en árið á undan. Ég ætla ekki að rekja tölur um mismunandi aflaverðmæti einstakra tegunda á milli ára en benda lesendum þessarar síðu á töflu Hagstofu Færeyinga þar sem þeir geta séð þessar tölur án gleraugna minna eða ritstjórnar Morgunblaðsins. 

Auðvitað er færeyska kerfið ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk en það hefur reynst miklum mun betur en íslenska kvótakerfið sem hvetur til svindls og skilar helmingi færri þorskum á land en fyrir daga þess.


Bloggfærslur 29. maí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband