Leita í fréttum mbl.is

Einar Kristinn Guðfinnsson situr með Þorsteini Pálssyni á blogginu sínu

Einar Kristinn Guðfinnsson á víst að heita sjávarútvegsráðherra en hann virðist vera í flestu öðru en að sinna þeim verka. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld komu uppsagnir á Flateyri honum algerlega í opna skjöldu. Og uppsagnirnar í Bolungarvík rétt fyrir kosningar voru afleiðingar stöðu rækjuiðnaðarins að sögn Einars Kristins - þ.e. hann kom með þá hjákátlegu skýringu.

Ég renndi í gegnum skrif Einars á heimasíðu hans og við þá athugun kom í ljós að ráðherra sjávarútvegsmála forðast að ræða sjávarútvegsmál eins og ökufantur að fara um Húnavatnssýslu. Einu færslurnar þar sem ráðherrann sér ástæðu til að drepa niður penna um sjávarútvegsmál eru um sjónvarpsþátt þar sem sjóhundurinn og nú alþingismaðurinn Grétar Mar Jónsson tók ráðherrann í kennslustund um stöðu atvinnugreinarinnar og hin færslan var um dýrðardagana þegar afi hans og alnafni í Bolungarvík starfaði í sjávarútvegi. Sú var skrifuð fyrir páska og var um það að steinbíturinn boðaði vorkomuna.

Nú er von að Vestfirðingar fái annan og betri sjávarútvegsráðherra. Þegar maður horfir yfir sviðið er þó ekki um auðugan garð að gresja. Helsta vonin er Össur Skarphéðinsson.


Halldór Halldórsson kaus hlutskipti Flateyrar

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, hefur sneitt hjá því að ræða hina raunverulegu ástæðu þess hversu illa er komið fyrir atvinnulífinu á Vestfjörðum. Aldrei gagnrýnir hann eða gerir tillögur að breytingum á kvótakerfinu sem augljóslega hefur grafið undan atvinnulífinu og hefur engu skilað hvað varðar bættan þjóðarhag. Skuldir hafa þrefaldast á meðan tekjur sjávarútvegsins hafa dregist sman.

Í Fréttablaðinu í dag heldur hann áfram á þeirri braut sinni að ræða lausn á atvinnumálum Vestfirðinga eins og að kvótakerfið sem er meginorsök atvinnuástandsins sé óbreytanlegt náttúrulögmál en ekki mannanna verk sem vel er hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi.

Hið sama má segja um viðbrögð Gríms Atlasonar, bæjarstjóra í Bolungarvík, við fjöldauppsögnum í Bolungarvík um daginn.

Þessir forráðamenn sveitarfélaganna á Vestfjörðum og víðar um land verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Þeir eru sjálfir á fínu kaupi við að friðmælast við stjórnvöld. Hafa mennirnir ekki neina samvisku? Þeir verða að fara að ræða raunverulegar breytingar sem verða til einhvers gagns.

Þetta ástand er ekki bundið við Vestfirði, heldur teygir sig yfir allar sjávarbyggðirnar og skaðar heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Hvar er annars Einar Kristinn í þessari umræðu?


Bloggfærslur 19. maí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband