Leita í fréttum mbl.is

Ný skýrsla sem gefur til kynna að þjóðarbúið tapi tugmilljörðum á næsta ári

Niðurstöður vorralls Hafró gefa til kynna að uppbyggingarstarf stjórnvalda hafi ekki gengið eftir.  Stjórn veiðanna byggir á svokallaðri veiðireglu sem hvílir ekki á neinum vistfræðilegum grunni heldur einhverju undarlegu samblandi af hagfræði og stærðfræðilegri fiskifræði sem hefur hvað eftir annað borið upp á sker. 

Nú finnur Hafró engan fisk þrátt fyrir að veiðar hafi sjaldan gengið betur og ætti það eitt að sá efasemdarfræjum um áreiðanleika fiskatalningarinnar sem fram fór í togararallinu.

Fréttirnar eru gríðarlegt reiðarslag fyrir íslenskt þjóðarbú, þ.e.a.s. ef það verður úr að ráðleggingum Hafró verði fylgt í blindni eins og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gert síðasta einn og hálfan áratug.

Það má ætla að íslenskt þjóðarbú verði af tugmilljarða króna tekjum ef veiði verður minnkuð í sama mæli og lækkun stofnvísitölu gerði í þessum mælingum, þ.e. stofnvísitala þorsks lækkaði um 17% og ýsu um 12%.

Það er orðið löngu tímabært að taka bæði stjórnun og vísindaráðgjöf á fiskveiðiauðlind Íslendinga til gagngerrar endurskoðunar.


Íslandshreyfingin í tómri vitleysu í sjávarútvegsmálum

Erfitt hefur verið að átta sig á yfirlýsingum formanns Íslandshreyfingarinnar Ómars Ragnarssonar um sjávarútvegsmál.  Hann hefur þó  lýst því yfir að hann sé fylgjandi kvótakerfinu.

Fyrsti fundur sem Íslandshreyfingin sá ástæðu til að boða til um sjávarútvegsmál er í kvöld og eru framsögumenn forsvarsmenn helstu hagsmunasamtaka sem vilja halda nánast óbreyttu kerfi sem hefur skilað þjóðinni tjóni  og höggvið djúp skörð í sjávarbyggðirnar.

Framsögumenn á fundinum eru Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ og Arthur Bogason, formaður LS. Fundarstjóri er Jakob Frímann Magnússon.

Það er spurning hvort að þeir bræður Sverrir og Dóri Hermannssynir munu sitja undir þessum ræðuhöldum á fremsta bekk?

 


Grétar Mar góður - benti á flótta VG og S frá umræðu um sjávarútvegsmál

Grétar Mar var góður í kosningaþætti Stöðvar 2 í gærkvöldi. Það var greinilegt að stjórnendur þáttarins reyndu hvað þeir gátu til að þagga niður alla umræðu um sjávarútvegsmál og illræmt kvótakerfi sem hefur valdið miklum búsifjum í öllum sjávarbyggðum landsins.

Egill Helgason var kjaftstopp þegar Grétar hermdi það upp á hann að fjölmiðlarnir þegðu þunnu hljóði þegar kæmi að sjávarútvegsmálum og kvótakerfinu. Þetta var hárrétt athugasemd hjá Grétari og Egill vissi upp á sig skömmina. 

Í þættinum kom skýrt fram að það voru ekki einungis kvótaflokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sem voru á flótta undan umræðu um kvótakerfið, heldur höfðu VG og Samfylkingin bæst í flóttaliðið.

Samfylkingin hefur átt erfitt uppdráttar í umræðum um sjávarútvegsmál frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var sérstakur gestur á LÍÚ-þingi og hélt þar dæmalausa ræðu um kvótakerfið.

Steingrímur J. Sigfússon hefur einnig forðast umræðu um óréttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi allt frá því að hann gaf út furðurit sitt um sjávarútvegsmál fyrir áratug. Mig minnir að hún heiti Róið á ný mið.

Hvers konar jafnaðarmenn og sósíalistar eru það sem sætta sig við kerfi þar sem sjómönnum er gert að greiða 70% af því sem þeir afla til einhverra sem eru tilfallandi handhafar kvótans sem er lögum samkvæmt sameign þjóðarinnar?


Bloggfærslur 12. apríl 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband