Leita í fréttum mbl.is

Keypt vísindi í Háskóla Íslands!

Það er athyglisvert að lesa grein eftir Helga Áss Grétarsson lögfræðing í Morgunblaðinu í dag.  Helgi Áss er í rannsóknarstöðu við Háskóla Íslands í auðlindarétti en staðan er greidd af Landssambandi íslenskra útvegsmanna sem hefur ekki farið dult með að rétt sé að koma fiskveiðiauðlindum landsmanna í einkaeign.  Það kom ekki á óvart að kostaði fræðimaðurinn skyldi reka áróður fyrir einkaréttarfyrirkomulaginu þrátt fyrir að Kristín Ingólfsdóttir rektor hafi einhverju sinni haldið því fram  að LÍÚ hefði ekkert að gera með niðurstöður Helga. Hið gangstæða sannaðist þó í  grein Morgunblaðsins þar sem sést að Háskóli Íslands slær ekki á höndina sem gefur.

Í aðkeyptum hugmyndum fræðimannsins kemur fram það viðhorf að það geti jafnvel orðið tilefni frekara ósættis ef tryggt verði að fiskveiðiauðlindin verði um aldur og ævi eign íslensku þjóðarinnar, í stað þess að vera einkaeign.  

Rökstuðningur fræðimannsins er afar veikur og fer hann vítt og breitt í tíma og rúmi til þess að rökstyðja að launagreiðendur sínir skuli fá að eignast auðlindir Íslendinga. Helgi leitar sumsé aftur til landnámsaldar á Íslandi og síðan enn lengra aftur, til Rómaríkis.  

Þetta væri auðvitað gott og blessað ef kostaði fræðimaðurinn véki nokkrum orðum að því að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði nýlega komist að því að veiðiheimildir væru ekki varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. 72. grein.

Það gefur auga eið að ekki getur myndast eignarréttur í auðlind þó svo að ríkið hafi úthlutað stórum hluta af aflaheimildum fyrir rúmum 20 árum þar sem að frá því að fyrst var úthlutað hafa farið fram margvíslegar endurúthlutanir á sömu aflaheimildum, svo sem í formi byggðakvóta.  Einnig má nefna að úthlutun á veiðiheimildum fór ekki einungis eftir aflareynslu viðkomandi útgerðar heldur komu mörg sjónarmið til, svo sem skipstjórakvótar og sérstök úthlutun eftir landshlutum.

Aðalatriðið er að kerfið virkar ekki og þess vegna eiga ábyrgir stjórnmálamenn að leita leiða út úr kerfinu sem allra fyrst. 


Bloggfærslur 26. mars 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband