Leita í fréttum mbl.is

Er Samfylkingin fyrir venjulega Íslendinga?

Samfylkingin gaf út stefnuskrá fyrir síðustu kosningar þar sem gerð var grein fyrir stefnu flokksins í velferðarmálum Íslendinga. Í nýlegri blaðagrein gerði gamli eðalkratinn Björgvin Guðmundsson grein fyrir því að Samfylkingin væri langt frá því að efna loforð sín. Allir framhaldsskólanemar vita að Samfylkingin hefur svikist um að skaffa þeim ókeypis kennslubækur.

Nú ætti tími Jóhönnu og Samfylkingarinnar að vera kominn og rétt að huga að því hvort flokkurinn væri í þann mund að ná einhverju fram í velferðarmálunum, s.s. í hækkun vaxta- og barnabóta. Jóhanna Sigurðardóttir hefur löngum lagt gríðarlega mikla áherslu á þessa málaflokka og haldið langar ræður í talnabundnu máli þar sem þungar áherslur voru lagðar á misgengi verðlags og bóta og hnykkt á með tilvitnunum í prósentur í þátíð, nútíð og framtíð. 

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að sjá þess nokkur merki að umtalsverð hækkun verði á þessum málaflokkum og eru í raun áhöld um að þeir haldi í við verðlags- og mannfjöldaþróun.

Þó að tími Jóhönnnu virðist samkvæmt öllum sólarmerkjum ekki vera kominn þrátt fyrir að hún sé sest í stól ráðherra, þá birtist skýrt í fjárlagafrumvarpinu að tími Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er svo sannarlega kominn. Hún nær að hækka svo um munar fjárframlag til sinna hugðarefna, s.s. þróunarsamvinnu í útlöndum um 35%, 770 milljónir, og nemur hækkunin hærri upphæð í krónum talið en sú sem lögð var í að hækka barna- og vaxtabætur til almennings sem glímir bæði við hærri vexti og verðbólgu.

Þessi skyndilegi fjáraustur verður á sama tíma og virðulegur landlæknir Sigurður Guðmundsson kemur ásamt Sigríði Snæbjörnsdóttur konu sinni til landsins á ný eftir ársdvöl í Malaví við hjálparstörf. Hjónin fluttu þann boðskap til Íslendinga eftir dvölina þar syðra að óheftur fjáraustur vestrænna ríkja skilaði engu. 

Eina leiðin til að skilja þessi skyndilegu útlát Samfylkingarinnar er að á sama tíma sækist lýðveldið Ísland eftir setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hér sé um að ræða einhvern herkostnað því samfara.

Er nema von að spurt sé hvort Samfylkingin sé fyrir Íslendinga?


Bloggfærslur 27. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband