Leita í fréttum mbl.is

Björn Bjarnason dómsgoði

Fyrrum borgarstjóri og núverandi þingmaður, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið eins og það er orðað. Ég veit ekki betur en að bæði kyn hafi borið titilinn og gegnt þessu starfi með ágætum, en það er fjarri mér að gera lítið úr að þetta starfsheiti geti mögulega truflað eða stuðað fólk. Sjálfum er mér ekkert sérstaklega annt um það og finnst það jafnvel vera heldur gamaldags og ekki lýsandi fyrir pólitískan leiðtoga sem þiggur vald sitt frá fólkinu.

Það sem mér finnst vanta upp á þingsályktunartillögu Steinunnar, einkum ef málið brennur heitt á henni, er að hún komi með einhverjar tillögur að nýrri nafngift. Nú ætla ég að bæta þar úr og leggja til að við Íslendingar leitum upprunans. Þá liggur beinast við að taka upp orðið goði. Goðar voru á þjóðveldisöldinni helstu pólitísku leiðtogar auk þess að hafa með höndum geistlegt hlutverk. Goðar eru fram á þennan dag af báðum kynjum og ekkert því til fyrirstöðu að konur beri heitið goði, s.s. hofgoði og Vesturlandsgoði vitna um.

Ég er ekki frá því að þetta væri virðulegra starfsheiti fyrir einn duglegasta ráðherra þjóðarinnar, þ.e. að gegna heitinu dómsgoði Íslendinga í stað þess að vera hæstvirtur dómsmálaráðherra. Eini mögulegi lausi endinn sem þyrfti að hnýta við þessa nafnabreytingu væri starfsheiti Geirs Haarde sem yrði þá væntanlega allsherjargoði, sbr. líka allsherjarnefnd sem tekur við málum frá forsætisráðherra/allsherjargoða. Væntanlega þyrfti þá að semja við Hilmar Örn Hilmarsson, sem nú ber þennan titil með virktum, um að hnýta aftan við sinn Ásatrúarfélagsins. Þá væri það mál leyst.


Bloggfærslur 22. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband