Leita í fréttum mbl.is

Al Jazeera

Í sumar var ég á ferðalagi á Spáni og hafði aðgang að tveimur fréttastöðvum. Önnur var Sky og hin Al Jazeera á ensku. Ég hafði fyrirfram ákveðna fordóma gagnvart arabísku sjónvarpsstöðinni og horfði í fyrstu meira á Sky en það breyttist fljótlega. Það var fyrst og fremst vegna þess að Sky er hálfgert svæðissjónvarp og mjög enskumiðuð sjónvarpsstöð. Þar er horft á heiminn í gegnum einglyrni.

Al Jazeera kom mér verulega á óvart og á ensku rásinni þeirra voru margir gamalreyndir og frægir sjónvarpsfréttamenn, s.s. David Frost. Þar er oft kynnt annað sjónarhorn þannig að maður gat séð fréttir og gang mála frá nýjum hliðum. Ég hef lúmskt gaman af hvað Al Jazeera eru fundvísir á ýmis skringilegheit og snögga bletti á bandarísku samfélagi.

Núna í vikunni hef ég m.a. séð mjög vandaða úttekt á sístækkandi markaði fyrir sérútbúna tanka til að grafa djúpt ofan í jörðina til að lifa af kjarnorkustríð eða eitthvað þaðan af verra. Í þættinum kom fram að eitt það mikilvægasta við að koma þessum tönkum fyrir væri að tryggja að næstu nágrannar fréttu ekki af. Það myndi mögulega leiða til þess að þegar kjarnorkustríð brysti á hópaðist fólk niður í tankinn og þá er ekki víst að tankarnir yrðu til bjargar, þ.e. ef allt hverfið ætlaði að skríða ofan í tank sem rúmar 15 manns.

Það var sömuleiðis frétt af fyrrum bandarískum kvenhermönnum sem sneru heim niðurbrotnar manneskjur eftir Íraksstríðið, fengu enga félagslega hjálp og neyddust til að gista í skýlum fyrir heimilislausa. Enn fremur var gríðarlega góð umfjöllun um hversu hátt hlutfall fólks þyrfti að fá matargjafir í Oklahoma í Bandaríkjunum. Aðstæður heimilislausra eru ömurlegar.

Fleira má nefna, s.s. langt og ítarlegt viðtal við Bandaríkjamann sem hafði það að ævistarfi að gæta dauðadæmdra fanga og taka þá svo af lífi.

Það sem fer í gegnum huga minn eftir að hafa séð málin út frá þessu sjónarhorni sem er örugglega allt rétt og satt um Bandaríkin, þ.e. sem fram hefur komið í þessum sjónvarpsþáttum, er hvaða fréttir það eru sem vestrænar fréttastofur velja frá t.d. Arabaheiminum, eða bara öðrum heimshlutum en sínum eigin. Maður fer að setja spurningarmerki við það sem er til umfjöllunar hverju sinni. Það er hægt að beina kastljósi að neikvæðum hlutum í öllum samfélögum.


Bloggfærslur 18. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband