Leita í fréttum mbl.is

Fréttablaðið og Þorsteinn Pálsson

Ég stend mig að því að fletta æ sjaldnar í gegnum Fréttablaðið og er ástæðan fyrst og fremst sú að það er ekki borið út í hús hér á Króknum heldur þurfa bæjarbúar að sækja blaðið í verslanir. Með áskrift Morgunblaðsins fylgir fríblaðið 24 stundir og ég er ekki frá því að það sé orðið öllu snarpara í fréttaflutningi en Fréttablaðið. Ég er vel mettur af lesefni þar sem ég er áskrifandi að DV sem á sína snörpu og góðu spretti.

Það sem ég hef furðað mig á er að Fréttablaðið skuli ekki vera borið út á landsbyggðinni til áskrifenda DV en mér skilst að bæði blöðin séu að stórum hluta í eigu sömu aðila. Ég er viss um að ef Fréttablaðið fylgdi DV stuðlaði það að útbreiðslu beggja dagblaða víða á landsbyggðinni.

Þó svo að það sé fátíðara að ég lesi Fréttablaðið vill svo til að ég var rétt í þessu að lesa það á netinu. Það tekur því miður dálitla stund að hlaða því niður og það er frekar þungt í vöfum að blaða í gegnum það. Leiðarinn var skrifaður af Þorsteini Pálssyni ritstjóra og hann var mjög gagnrýninn á hagfræðitilraun í peningastefnu stjórnvalda sem felst í sjálfstæði Seðlabankans í að hækka vexti til að tryggja 2,5% verðbólgumarkmið.

Það sem er merkilegt við leiðara Þorsteins er ekki hvað hann segir heldur hvað hann segir ekki. Hann fjallar ekkert um hver sé meginorsök þess að ekki næst að hemja verðbólguna þrátt fyrir hæstu vexti í Evrópu. Ástæðurnar eru auðvitað þær að ríkisstjórn sem leidd er af flokki ritstjóra Fréttablaðsins hefur staðið fyrir mjög umdeildum skattalækkunum en fjármálaráðherra viðurkenndi í viðtali á viðskiptasjónvarpsstöðinni Bloomberg að eftir á að hyggja hefði sú skattalækkun verið nokkuð vafasöm og sömuleiðis hefur ríkisstjórnin lagt til í fjárlagafrumvarpi ársins 2008 að ríkisútgjöld verði þanin út um vel á annan tug prósenta.

Það er í sjálfu sér mjög jákvætt að ritstjóri Fréttablaðsins sé gagnrýninn á hinar ýmsu tilraunir sem ekki hafa gefist eins og skyldi. Mér finnst þó standa fyrrum sjávarútvegsráðherra nær að velta fyrir sér annarri tilraun sem alls ekki hefur gengið eftir en það er auðvitað íslenska kvótakerfið. Þegar það var farið af stað með þá tilraun átti það að gefa þjóðinni 400-500 þúsund tonna jafnstöðuafla en nú eftir liðlega 20 ára tilraunastarf er aflinn 130 þúsund tonn.


Bloggfærslur 17. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband