Leita í fréttum mbl.is

Villi féll á eigin bragði

Maður fann til með borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þegar maður fylgdist með beinni útsendingu sjónvarpsins af fundi þeim sem borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins boðuðu til. Ég verð að segja eins og er að ég var virkilega farinn að finna til með fólkinu sem stóð þar fyrir svörum. Þau voru ringluð og sársvekkt, og greinilega ekki búin að vinna úr tilfinningum sínum.

Það má þó segja að borgarfulltrúi Vilhjálmur Þór hafi fallið á eigin bragði, því sem hann beitti þegar hann blekkti Ólaf F. Magnússon vorið 2006 eftir kosningarnar þá. Eini munurinn er sá að nú hefur taflið snúist við og borgarfulltrúi Björn Ingi Hrafnsson lék á Villa með því að telja honum trú um að samstarfið héldi. Þannig hélt hann Villa volgum.

Þessi vinnubrögð öll eru þó ekki til eftirbreytni, hvort sem um er að ræða ráðslag Villa eða Binga.

Eftir þennan tilfinningahlaðna blaðamannafund Sjálfstæðisflokksins birtist forsætisráðherra okkar í þinghúsinu, ekki síður sár og svekktur á svip og í tali. Það var greinilegt að honum fannst sem hann hefði misst borgina sína sem hann ætti með hurð og gluggum. Hann tók það þó fram að hann hefði leitað eftir fundi hjá „samstarfskonu“ sinni sem staðfesti við hann að hann væri ekki að missa sæti sitt í landsstjórninni. Var honum greinilega mikill léttir að þeim huggunarorðum formanns Samfylkingarinnar.

Nú er að sjá hvort Ingibjörg leikur sama leikinn og bæði Björn og Villi.

Það er rétt að óska nýjum meirihluta borgarstjórnar og borgarstjóra velfarnaðar. Maður hefur vissar efasemdir en þær væru eflaust mun minni ef í borgarstjórastólnum sæti Svandís Svavarsdóttir. Hún hefur sýnt af sér röggsemi og það verður fylgst með störfum hennar.


Bloggfærslur 11. október 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband