Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2024

Verður verðmunur í Færeyjum og Íslandi útskýrður?

Morgunblaðið hratt nýlega af stað umræðu um veiðigjaldið en í umfjöllun blaðsins kom fram að gjaldið væri einfaldlega 33% af reiknuðum hagnaði útgerðarinnar. Þegar betur er að gáð þá voru þessir útreikningar hvorki einfaldir né byggðir á raunvirði aflans. Í raun er álagning veiðigjaldsins hálfgerð vitleysa þar sem raunverð á markaði er ekki látið ráða heldur er verðið meira og minna ákvarðað af ríkistofnun sem gefur út verðskrá sem er iðulega langt undir markaðsvirði. Sem dæmi um þetta má nefna að meðalverð á markaði fyrir þorsk er nú 540 kr/kg en ríkisverðið er 333 kr/kg fyrir 4. kg. þorsk.

Við nánari athugun þá koma í ljós gríðarlegar sviptingar á álagningu veiðigjaldsins, en veiðigjaldið á grálúðu lækkaði frá 32 kr. á kílóið í fyrra niður í 0 krónur í ár, en þar með er líklegt að ríkissjóður hafi orðið af um 400 milljónum kr. Til að fá skýringar á þessum sviptingum þá hringdi ég í matvælaráðuneytið og fékk þær upplýsingar með hraði að gjaldtakan byggðist á upplýsingum frá útgerðinni frá árinu 2022, á sérstöku eyðublaði þar sem greint var frá því að það hefði verið tap á veiðum á grálúðu það árið! Ekki kannast ég við neinar haldbærar skýringar á tjóni útgerðanna við að veiða fiskinn en þetta var víst niðurstaðan á eyðublaðinu!

Launaþjófnaður?

Annað sem vakti athygli var tæplega 50% lækkun á veiðigjaldi makríls frá því í fyrra og er gjaldið nú aðeins um tvær krónur á kílóið. Til þess að leita skýringa skoðaði ég m.a. meðalverð makríls á Íslandi og kom þá í ljós að verðið í ár var aðeins um 82 kr/kg á meðan verðið er liðlega 256 kr/kg að meðaltali í Færeyjum á sama tíma.

Þessi samanburður lítur verulega illa út. Annaðhvort er makríllinn sem íslensk skip veiða, á sama tíma og sama stað og Færeyingar, verðminni eða þá að verið er að hlunnfara íslenska sjómenn með einhverri furðu verðlagningu langt undir raunvirði og taka í leiðinni laglegan óforsvaranlegan snúning á veiðigjöldunum.

Screenshot 2024-11-07 101824

 

 

 

 

 

Flokkur fólksins mun berjast fyrir því að koma á gagnsærri verðmyndun á fiski með aðskilnaði veiða og vinnslu og frjálsum uppboðsmarkaði á fiski. Það sér hver heilvita maður að þessi leikaraskapur með verðmyndun sem hefur bein áhrif m.a. á laun sjómanna og veiðigjöldin, gengur engan veginn upp.


mbl.is Varpa ljósi á stjórn fiskveiða á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðigjöldin

Það var talsvert gert úr því að frambjóðandi Pírata var ekki með það á hreinu hve veiðigjaldið er hátt í þættinum Spursmál.  Þáttarstjórnandi upplýsti að veiðigjaldið væri 33% af reiknuðum hagnaði útgerðarinnar og látið var í veðri vaka að um ofureinfalt mál væri ræða sem allir ættu vera með á hreinu.  Málið er álagningin er langt frá því að vera einföld, sbr. nánast óskiljanlega framsóknarlega 5. gr. laga um veiðigjaldið. 

Í raun er álagningin hálfgerð vitleysa þar sem raunverð á markaði er ekki látið ráða heldur  er verðið meira og minna ákvarðað af ríkistofnun sem gefur út verðskrá sem er jafnan langt undir markaðsvirði. Meðalverð á markaði nú fyrir þorsk er 540 kr/kg en ríkisverðið er 333 kr/kg fyrir 4. kg. þorsk.  

Flokkur fólksins hefur lagt áherslu á að fiskur fari í auknum mæli á markað en það eitt myndi ekki aðeins auka gagnsæi heldur skila ríkissjóði og sveitarfélögum hærri tekjum í gegnum hærri tekjur sjómanna og hafnargjöld.

Hvað eru veiðigjöldin há? 

Veiðigjaldið á þorsk er 27 kr./kg sem er um 5% af raunvirði hráefnisins sem útgerðin greiðir fyrir tímabundinn rétt til þess að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar.  Þegar verið er að meta hvort gjaldið sé of hátt eða lágt, þá liggur fyrir tilboð frá LS um að greiða hátt í fjórfalt hærra veiðigjald í sameiginlega sjóði fyrir veiðiheimildir í þorski eða 100 kr/kg. 

Það liggur skýrt fyrir að núverandi stjórn fiskveiðar er ekki að gera sig en afli er mun minni í öllum kvótasettum nytjategundum en fyrir "stjórnun". Áður blómlegar byggðir eru visnar og jafnvel útlit fyrir að þær fari í eyði, ef ekki verður hliðrað til í kerfinu.  Flest ef ekki allt bendir til þess að óhætt sé að auka frelsið til veiða smábáta en engu að síður þá er það aðeins Flokkur fólksins sem leggur áherslu á frelsið.

Aðrir flokkar telja meira og minna að lausnin sé að auka skattlagningu og halda nánast áfram í óbreytt kerfi. Það ætti að liggja ljóst fyrir að sú skattlagning hlýtur að þurfa að vera gerð á markaðslegum forsendum, en ekki fyrrgreindri 5. gr. laga um veiðigjald.

 

---------------------------------------------------------------

Hér er 5. gr. fyrir áhugasama.

 5. gr. Reiknistofn.
 Stofn til ákvörðunar veiðigjalds hvers nytjastofns skal reikna í þremur skrefum. Fyrst skal reikna fyrir hvert fiskiskip. Frá aflaverðmæti hvers nytjastofns sem skipið veiðir skal draga hlutdeild stofnsins í breytilegum og föstum kostnaði skipsins við veiðiúthald. Hlutdeild í breytilegum og föstum kostnaði við veiðiúthald skal vera jöfn hlutdeild aflaverðmætis stofnsins af heildaraflaverðmæti skipsins á almanaksári. Þessu næst skal leggja saman þá niðurstöðu fyrir öll fiskiskip sem veiddu nytjastofninn. Að lokum skal deila í samtölu þessa með öllu aflamagni nytjastofnsins hjá öllum fiskiskipunum á sama almanaksári. Reikna skal til króna á kílógramm landaðs óslægðs afla.
 Aflaverðmæti skal umreikna úr slægðum eða unnum afla til óslægðs afla og skal við þessa reikninga lækka skráð aflaverðmæti landaðs frysts afla um 1/ 10 til að taka tillit til vinnslu um borð í skipum. Hækka skal skráð aflaverðmæti síldar, loðnu, kolmunna og makríls um 1/ 10. Til breytilegs kostnaðar við fiskveiðar telst launakostnaður áhafna, eldsneyti eða annar orkugjafi fiskiskipa, veiðarfærakostnaður, viðhald fiskiskipa, frystikostnaður og umbúðir, löndunarkostnaður, hafnargjöld og eftirlits- og leyfisgjöld í fiskveiðum önnur en veiðigjald, flutningskostnaður, tryggingar, sölukostnaður og stjórnunarkostnaður. [Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar. Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Áætluð vaxtagjöld skulu nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju.] 1)
 Eigendum, útgerðaraðilum og rekstraraðilum íslenskra fiskiskipa er skylt að skila sérstakri greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa og úthaldi þeirra, sundurgreint á einstök fiskiskip, með skattframtölum á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ákvæði 90. og 92.– 94. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, gilda um öflun og skil þessara upplýsinga, eftir því sem við á. Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi eða ótrúverðugar, eða frekari þörf er talin á upplýsingum um einstök atriði, skal ríkisskattstjóri skora á viðkomandi að bæta úr. Verði áskorun um úrbætur ekki sinnt skal áætla tekjur og kostnað og skal miða fjárhæð kostnaðar við að hún sé ekki hærri en raunverulegur kostnaður. Við þessa áætlun er heimilt að taka mið af gögnum og upplýsingum sem aflað er hjá opinberum stofnunum og einkaaðilum. Jafnframt er heimilt að leiðrétta sýnilegar villur eða mistök í upplýsingum. Fiskistofu er heimilt að miðla upplýsingum til embættis ríkisskattstjóra úr aflaskýrslum og vigtar- og ráðstöfunarskýrslum og skal hún vera embættinu til ráðuneytis um þau gögn sem stofnunin lætur því í té.
 Komi í ljós við yfirferð greinargerðar sem getur í 3. mgr. að hún er ranglega útfyllt þannig að tekjur eru verulega vantaldar eða kostnaður oftalinn skal ríkisskattstjóri leggja á rekstraraðila sérstakt gjald sem nemur 5% af vantalinni tekjufjárhæð og/eða oftöldum kostnaði. Gjald þetta skal leggja á óháð því hvort vantaldar tekjur og/eða oftalinn kostnaður leiðir sem slíkur til leiðréttingar á reiknistofni veiðigjalds. Þá varðar engu þótt leiðrétting sé gerð síðar en tillaga er gerð til ráðherra skv. 4. gr. Ákvörðun ríkisskattstjóra um álagningu þessa gjalds er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.
 Í þeim tilvikum þegar ekki liggja fyrir full skil upplýsinga sem getur í 2. og 3. mgr. skal engu síður reikna stofn veiðigjalds fyrir nytjastofna, eftir atvikum með beitingu þeirra heimilda sem kveðið er á um í 3. mgr.
 Hafi útreikningur reiknistofns reynst verulega rangur af einhverjum ástæðum er heimilt að endurákvarða gjaldið, samkvæmt ákvæðum 4. gr., til allt að síðustu tveggja veiðigjaldsára, þótt í ljós hafi komið að álagning hafi verið of lág.


Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband