Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Afhjúpun Hvalaskýrslu Hagfræðistofnunar

Hagfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa í gegnum tíðina tekið að sér hin ólíklegustu verkefni á sviði líffræði m.a. að spá fyrir þróun stofnstærðar fiska áratugi fram í tímann, út frá mismunandi veiðiálagi. Veiðiálag er ákveðið með aflareglu sem segir til um leyfilegan heildarafla miðað við útreiknaða stærð veiðistofns. Aflareglan þorsks hefur tekið breytingum í gegnum tíðina þ.e. farið úr 25% og niður í 20% af útreiknuðum veiðistofni.

Ástæðan fyrir breytingunum er einfaldlega sú að höfundar reglnanna ganga út frá þeirri forsendu að veiðar sé sá þáttur sem ráði mestu um stærð fiskistofna. Síðan þegar botnfiskstofnar s.s. þorskstofninn hefur farið í eðlilega niðursveiflu, þá hefur verið ályktað út frá fyrrgreindum forsendum, að veitt hafi verið allt of mikið úr veiðistofnum, burt séð frá því að veiðin hafi verið miklu mun minni en sömu stofnar þoldu um áratuga skeið.

Sömuleiðis er gengið út frá því að stórir stofnar gefi meiri nýliðun og meiri árlegan fiskafla. Svo mikil er þessi trú hjá reiknisfiskifræðingunum að í hruninu lagði einn virtasti spekingurinn á þessu sviði, það til að þjóðin hætti þorskveiðum alfarið í 2 ár, til þess að fá enn meiri afla og afrakstur seinna!

Gallinn við þessar kenningar sem Hagfræðistofnun hefur unnið með, er fyrst og fremst sá að þær hafa aldrei gengið upp, enda stangast þær á við viðtekna vistfræði,sem kennd er í framhaldsskólum landsins.

Grundvallarforsenda reiknilíkans Hagfræðistofnunar um afrakstur aflreglu gerir ráð fyrir að náttúrleg afföll þ.e. það sem drepst af fiski vegna hvala, sela, sjúkdóma og áti annarra fiska sé heldur minna magn en fiskiskip veiða árlega.

Skýrsla Hagfræðistofnunar, Þjóðhagsleg áhrif hvalveiða staðfestir að náttúrulegur dauði er miklu mun meiri en gert er ráð fyrir í forsendum reiknilíkansins,sem ætti að segja öllum vísindamönnunum hvort sem þeir eru líffræðimenntaðir eður ei, að veiðiráðgjöfin og núverandi aflaregla sé byggð á sandi. Niðurstaða skýrslunnar benda eindregið til að nytjastofnar sem um ræðir séu miklu mun stærri en Hafró gerir ráð fyrir í sínum útreikningum og jú að áhrif veiða á fiskistofna séu stórlega ofmetin.

Þetta kemur skýrt fram sérstaklega hvað varðar ýsuna. Í ráðgjöf Hafró kemur fram að náttúruleg dánartala ýsunnar sé 0,2 eða 18% af stofnstærð. Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur skýrt fram á bls. 33 í töflu 12, að át hrefnu sé tvöfalt meira en öll áætluð náttúruleg afföll stofnsins.

Skýrslan afhjúpar afar veikar forsendur sem núverandi ráðgjöf byggir á og bendir eindregið til þess að hægt sé auka verulega við fiskafla á Íslandsmiðum.

 

 

 


Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband