Leita í fréttum mbl.is

Efnahagsstefna Samfylkingarinnar skrifuð af Icesave-fyrirsætunni

Fyrirsæta Icesave, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, sem var helsta númerið í auglýsingabæklingi Landsbankans fyrir útibú hans í Hollandi - ekki er ár síðan hann kom út - er meðal höfunda efnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Ritstjórinn er enginn annar en fyrrum aðstoðarmaður Icesave-ráðherrans Björgvins G. Sigurðssonar, Jón Þór Sturluson. Hann gat sér gott orð fyrir árangursríkt samstarf við Tryggva Þór Herbertsson þegar þeir skrifuðu saman varnarrit fyrir olíusamráðssvindli olíufélaganna um árið. Þeir félagarnir komust að því að svindlið hefði nánast ekkert skaðað hag þjóðarinnar.

jón

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að mörgum orðum sé raðað saman í efnahagsstefnunni er innihald hennar afar rýrt í roðinu. Það er óljós greining á ástandinu og mjög óljósar áherslur um hvernig eigi að fara út úr þröngri stöðu. Talað er um að halda áfram að lækka vexti rétt eins og sú vegferð sé hafin að einhverju marki. Þetta er eins og að koma að stórbrunnu húsi og byrja á að tala um að tímabært sé að sækja kannski vatn í brunninn. Verst þótti mér að lesa um nýtingu sjávarauðlindanna en í þeim torræða kafla má helst greina að það eigi að auka flækjustigið og torvelda aukningu veiðiheimilda.

Til samanburðar er stefna Frjálslynda flokksins í efnahagsmálum á mannamáli sú að auka framleiðsluna. Við viljum auka veiðiheimildir í þorski strax um 100.000 tonn og ná þannig í tugi milljarða í beinhörðum gjaldeyri. Sömuleiðis viljum við gefa handfæraveiðar frjálsar en það frelsi myndi búa til hundruð starfa vítt og breitt um landið og í lokin er rétt að geta þess að Frjálslyndi flokkurinn vill ekkert hálfkák í lækkun vaxta og afnámi verðtryggingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bíddu ertu að segja að Jón Sigurðsson, formaður Fjármálaeftirlitsins - opinberrar stofnunar, hafi verið fyrirsæta  í auglýsingu Landsbankans vegna Icesave? Það getur bara ekki staðist, eða hvað hefurðu fyrir þér í því? Alþingismenn geta varla hent svona nokkru í loftið án heimilda.

Jón (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 15:25

2 identicon

ALLT sem kemur frá Samspillingunni er "rýrt í roðinu", þess vegna fjalla ég ÁVALT um þennan flokk sem meiriháttar "lýðskrum".  Á næstu 2-4 árum náum við hugsanlega að taka upp nýjan gjaldmiðil, segjum t.d. dollar, þá gefur auga leið að aðeins 33% af þjóðinni segir já við EB!  Þá má í raun leggja niður Samfylkinguna, enda hefur hún bara þetta eina stefnumál á dagskrá hjá sér....

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 18:05

3 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Einfaldir menn komast að einföldum niðurstöðum Jakob.

Páll Geir Bjarnason, 9.4.2009 kl. 20:12

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Myndin úr bæklingnum af fyrirsætunni og manninum sem hefur markað leið Samfylkingar út úr kreppunni er komin inn í myndaalbúmið hjá mér.

Sigurjón Þórðarson, 9.4.2009 kl. 21:39

5 identicon

Góðan daginn.

Ég las færslu um síðasta sjónvarpsfundfund hér, en finn hana ekki lengur. Því á þessi athsemd etv ekki heima hér, en hvað um það:

Ekki veit ég  Sigurjón, hvort ein af glefsunum sem þú sást var þegar ,,Stálfrúin´' hafnfirska setti fram spurningar.

Burtséð frá hennar afstöðu, þá sáum við atvinnurekanda sem ásamt sinni fjölskyldu hefur árum saman skipt miklu máli fyrir fjölda fólks í byggðarlaginu.

Hvernig væri nú að þið yngri menn, sem þekkið vart annað en opinbert framfæri og leitið grimmt í það skjól, tækjuð hana til fyrirmyndar? Reynduð að framkvæma eitthvað upp á eigin spýtur með tilheyrandi ábyrgð og áhættu.

Með bestu kveðju, Vilhj

Vilhjálmur Jónsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 11:23

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Vilhjálmur, hvað greiddi stálfrúin fyrir atvinnuréttindi sín og hvað finnst henni eðlilegt að nýliðar greiði fyrir sömu réttindi.

Aðalatriði málsins er reyndar að þjóðin er að stórtapa á kerfinu þar sem fiskimiðin eru vannýtt.

Til upplýsingar fyrir Vilhjálm þá er ég ekki ókunnugur stofnun fyrirtækja og veit að það er ekki dans á rósum að stofna og reka fyrirtæki en það er auðvitað ekki sama hvað er s.s. að leigja út atvinnuréttindi s.s. aflaheimildir fyrir hátt verð sem viðkomandi hefur fengið án endurgjalds. Það er örugglega auðveldur rekstur. 

Fyrsti rekstur sem ég hef komið að er þegar ég tók að mér garðslátt og garðvinnu á menntaskólaárum sem varð síðan að litlu verktakafyrirtæki.  

Síðan hef ég reynt ýmislegt m.a. fiskvinnslu og nú síðast að setja upp fiskbúð í félagi við gott fólk á Akureyri.

Sigurjón Þórðarson, 10.4.2009 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband