Leita í fréttum mbl.is

LÍÚ og Sameinuðu þjóðirnar

Stærsti hluti vöruútflutnings landsmanna er sjávarafurðir en þrátt fyrir það vantar ákveðna skerpu í umfjöllun um íslenska hagsmuni í sjávarútvegi. Í leiðara Morgunblaðsins þann 11. ágúst sl. var t.d. hvatt til þess að íslenskar
sjávarafurðir væru vottaðar af fyrirtækjum sem stjórnað er af græningjasamtökum sem sum hver eru á móti fiskveiðum.

Fyrir nokkrum árum lét sjávarútvegsráðherra Íslands glepjast af bók græningja sem var í raun rætinn áróður gegn fiskveiðum og þá sérstaklega togveiðum. Ástæðan fyrir því að ráðherra lét glepjast var bara sú að íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi fékk einhverra hluta vegna eitthvað hærri einkunn en kerfi Evrópusambandsins. Bókin End of the line sem sjávarútvegsráðherra Íslands hampaði óspart hvatti neytendur til þess að hætta að borða fisk og dró upp mjög dökka mynd af sjávarútveginum.

Ekki þarf að velkjast í vafa um að ef Íslendingar ákveða að taka upp viðkomandi umhverfismerkingar græningjanna munu samtök sem eru andsnúin fiskveiðum ná tangarhaldi á
atvinnugreininni og setja henni hertari kröfur, s.s. að hætta að stunda togveiðar. Það má sjá á skrifum ýmissa sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða í opinberri umræðu að harður áróður græningja gegn togveiðum virðist hafa náð hljómgrunni hér á Íslandi. Það gerist þrátt fyrir þá staðreynd að það sé á vitorði margra að í Barentshafinu þar sem þorskstofninn er sagður við hestaheilsu eru nær eingöngu stundaðar togveiðar og veitt hefur verið langt
umfram ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu.

LÍÚ fer að leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna

Helstu hagsmunasamtök útvegsmanna hafa nú loksins séð hættuna af öfgafullum umhverfissamtökum sem bjóðast til að votta afurðirnar en eru samt sem áður í nokkrum vafa um hvernig þau geti fullvissað neytendur um að íslenskur þorskur geti verið sjálfbær afurð. Erfitt getur verið að vitna í Hafró þar sem helstu sérfræðingar þar á bæ telja
lítið annað blasa við þorskstofninum íslenska en hrun ef sóknin verði ekki minnkuð. Þetta mat Hafró er vafasamt þar sem það byggir á reikniformúlum og -líkönum sem ganga þvert á viðtekna vistfræði og algerlega er litið framhjá
ástandi dýranna, fiskanna í stofninum sjálfum. Hvaða búfræðingi dytti í hug að fullyrða um ástand bústofns og hafa ekki til hliðsjónar ástand dýranna í stofninum? Ekki nokkrum. Þorskarnir sem Hafró telur að of mikið sé veitt af
eru ekki að vaxa eins og þegar sóknin var meiri. Þessi litli vöxtur gefur augljóslega til kynna að minna sé um æti en áður fyrir hvern og einn. Helstu merki um ofveiði ættu að vera fáir fiskar sem vaxa of hratt. Leiðin sem LÍÚ
hefur bent á er að byggja vottun sína á leiðbeiningarreglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og er þetta skref LÍÚ vísbending
um að það muni leitast við að uppfylla óskir Sameinuðu þjóðanna í auknum mæli.

Mannréttindanefnd Sameinu þjóðanna hefur þegar gefið út það álit að kvótakerfið brjóti í bága við mannréttindi og þá er að vænta þess að LÍÚ hafi forgöngu um að kerfinu verði breytt í átt til sanngirni og sátta.

Annað væri stílbrot.

(grein sem birtist fyrir skömmu í Morgunblaðinu)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurjón.

Rétt eins og bóndinn myndi ekki nota jarðýtu við túnaslátt, þá hvoru tveggja þurfum við og verðum að taka mið af gerð veiðarfæra við veiðar.

Umhverfisvottun við fiskveiðar er því ekki eitthvað sem við getum hundsað og skrifað á græningja, því slíkt tekur til alls aðferðafræði við veiðar, uppbyggingu stofna og kerfis fiskveiða.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 25.8.2008 kl. 02:21

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ef umhverfisöfgafólk með græningja og fleiri slík samtök fengju að ráða stjórnun fiskveiða í dag þá væru allar fiskveiðar bannaðar nema hugsanlega á stöng.Umhverfisöfgasamtök hafa mikil samskipti og tengsl inn í íslenska stjórnmálaflokka og er Frjálslyndiflokkurinn þar ekki undanskilinn.Frjálslyndiflokkurinn verður að móta sér stefnu hvað umhverfisöfga varðar, annars bíður flokksins ekkert annað en skipbrot.

Sigurgeir Jónsson, 25.8.2008 kl. 20:41

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurgeir.

Öfgar eru eitt eðlileg umhugsun um umhverfið annað, og þar er mikilvægt að skilja á milli.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.8.2008 kl. 02:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband