Leita í fréttum mbl.is

Skynsamleg og réttlát fiskveiðistjórn

Íslensk stjórnvöld hafa á umliðnum áratugum gert út sérfræðinga í langar og dýrar ferðir um heimsbyggðina til þess að kynna „bestu fiskveiðistjórn í heimi“ á sama tíma og kvótakerfið hefur sætt harðri gagnrýni hér heima fyrir.

Tilgangurinn með ferðunum hefur eflaust verið að bergmálið af lofi sérfræðinga á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson um kerfið bærist alla leið til Íslands á ný til að sætta landann við kerfi sem mikil óeining var um.

Í fyrstu gengu þessar fyrirætlanir eftir og reglulega birtust fréttir af sigurför „sérfræðinganna“ á fyrirlestraferðum og, já, þrátt fyrir að aflaheimildir væru stöðugt skornar niður og skuldahali útgerða yxi sem aldrei fyrr. Stjórnvöld reyndu að gera mikið úr árangri kvótakerfisins þrátt fyrir að annar kaldari veruleiki blasti þeim sem á annað borð vildu sjá hér heima.

 

Glæný frétt Morgunblaðsins

Nú kveður svo við að íslensk fiskveiðistjórn fær hverja falleinkunnina á fætur annarri að utan. Fyrst ber auðvitað að nefna álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að kvótakerfið sé ósanngjarnt. Álitið felur í sér þá skyldu fyrir íslensk stjórnvöld að bæta úr ranglæti kvótakerfisins ef þau ætla sér á annað borð að geta talið Ísland með réttarríkjum.

Nú berast þær fréttir á forsíðu Morgunblaðsins að bandarískir vísindamenn staðfesti að sú nýtingarstefna sem hefur verið fylgt á síðustu áratugum á Íslandsmiðum, sem felst í að stækka möskva og loka svæðum til verndar smáfisk, sé kolröng. Margir íslenskir líffræðingar með Jón Kristjánsson fiskifræðing í fararbroddi hafa einmitt haldið sama málflutningi á lofti með veigamiklum rökum, í vel á þriðja áratug. Stjórnvöld hafa ekki lagt við hlustir þrátt fyrir að fljótlega væri ljóst að nýtingarstefna sem fylgt var gengi ekki upp enda er þorskafli nú einungis um þriðjungur af því sem hann var að jafnaði áður en svokallað uppbyggingarstarf hófst. Stjórnvöld hafa miklu frekar reynt að þagga niður, í stað þess að hvetja til gagnrýninnar umræðu og skoðunar á íslenska kvótakerfinu en forsendur þess stangast á við viðtekna vistfræði, s.s. að friða fisk sem ekki er að vaxa og selja veiðiheimildir landshorna á milli.

Þessi þöggunarárátta hefur færst í aukana eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn og er nú svo komið að vísindamenn sem eru gagnrýnir á nýtingarstefnu sem ekki hefur skilað þjóðinni nema sífellt minni afla fá ekki aðgang að gögnum Hafró nema að reiða fram háar fjárhæðir. Þetta er átakanleg staðreynd í ljósi þess að Samfylkingin sem nú ræður för við stjórn landsins kenndi sig einu sinni við samræðustjórnmál!

Það felast gífurleg tækifæri í því fyrir þjóðarbúið að stjórna fiskveiðum með skynsamlegum og réttlátum hætti og er því óábyrgt að skoða ekki þau tækifæri sem í því felast. Einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar því miður fylgt þeirri stefnu að gera ekkert í því frekar en öðru. Sjávarútvegurinn skiptir gríðarlega miklu máli og það hlýtur að vera krafa almennings að það sé farið yfir öllu rök sem snerta nýtingu sameiginlegra auðlinda Íslendinga.

Höfundur er líffræðingur.

-Greinin birtist í Morgunblaðinu í gær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband