Leita í fréttum mbl.is

Þar sem er vilji er vegur - frú Isaksen

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins flutti tárvota ræðu á Alþingi um stöðuna í Grímsey. Hún grét þá stöðu sem uppi væri um framtíð byggðarinnar, en lagði engu að síður ekki nokkra lausn til. 

Það er ekki flókið að leysa úr vanda eyjaskeggja og það kostar ekki krónu, en það eina sem þarf að gera er að veita örlítinn sveigjanleika til þess að nýta nálæg fiskimið.  Þegar öllu er á botninn hvolft þá er enginn vilji til þess hjá ríkisstjórnarflokkunum - ekki einum einast þeirra.

Það var frekar aumt hjá Ingibjörgu Isaksen að klína stöðunni alfarið á Vg sem hafa vissulega ekki fært hlutina til betri vegar.  

Það er nefnilega svo að Sigurður Ingi hefur farið með málefni Byggðastofnunar og beitt sér persónulega gegn öllum breytingum í átt til jafnræðis og skynsemi sem snúa að úthlutun á byggðakvóta Byggðastofnunar.

Það væri miklu nær ef Framsóknarmenn litu í eigin barm og sýndu einhvern raunverulegan vilja til þess að leysa úr auðleysanlegum vanda Grímseyinga.  Það sem flækist fyrir þingmönnum Framsóknarflokksins er fyrst og fremst að þingmennirnir eru smeykir við að rugga misskildum hagsmunum örfárra auðmanna sem vita ekki aura sinna tal.

 

 

 


mbl.is „Hrikalegt bakslag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Sérhagsmunaöflin hafa fjórflokkinn í rassvasanum og prumpa á alþýðuna sem kýs aftur og aftur þetta lið. 

Sigurður I B Guðmundsson, 10.10.2024 kl. 11:24

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Já þetta er orðið verulega vandræðalegt fyrir Framsóknarflokkinn sem hefur gefið í skyn að sé málsvari landsbyggðarinnar, en svo virðist vera sem Miðflokkurinn sé á sömu línu og Framsókn þegar komið er að nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.

Sigurjón Þórðarson, 10.10.2024 kl. 13:04

3 identicon

Sælir; Sigurjón og Sigurður I B, sem aðrir Sigurjón´s gestir !

Í hnotskurn; leynd og ljós eyðileggingar starfsemi Engeyjar- og Samherja Mafíanna gagnvart landsbyggðinni, Grímseyingar EIGA að hafa sína hentisemi og HUNZA þessa þvælu tilskipun blýantanagara Byggðastofnunar ómyndarinnar.

Jeg man mæta vel; þá Byggðastofnun rjeri að því öllum árum, að Hraðfrystihús Stokkseyrar hf.var að foldu lagt, á árunum 1987 - 1992, eitt fjölmamargra þróttmikilla fyrirtækja á landsbyggðinni - og mega froðu snakkar alþingis og annarra blýantanagara og ómerkinga stofnana íslenzka gerfi- lýðveldisins hafa skömm mikla fyrir - og:: vonandi geta þau sjávarpláss landsins sem Reykjavíkur ómennzkan hefur lagt af velli í gegnum tíðina komið fram þeim hefndum, sem full þörf er á, þó síðar verði !

Með beztu kveðjum; sem oftar /

Óskar Helgi Helgason

Birgðavörður Hraðfrystihúss Stokkseyrar hf.

1983 - 1991     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.10.2024 kl. 00:00

4 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég verð að viðurkenna fáfræði mína
er lausnin að úthluta smábátum í Grímsey myndarlegum kvóta með undanþágu frá skyldu um löndun í Grímsey
Aflanum yrði þá væntanlega landað á Akureyri (Samherja)?

Grímur Kjartansson, 11.10.2024 kl. 07:59

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sæll Grímur hér eru tillögur Flokks fólksins til stjórnar Byggðastofnunar en þær miðuðu að því að byggja upp sjálfbæra atvinnustarfsemi í sjávarbyggðunum.  Þessum tillögum var ekki vel tekið af Sigurði Inga og þær urðu til þess að hann neitaði að endurskipa mig í stjórn Byggðastofnunar - Það er nokkuð ljóst hver ástæðan var Jú hann vildi viðhalda spillingunni. 

 Koma þarf á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum, en taka af vinnsluskyldu.

Núverandi framkvæmd á löndunarskyldu er með ýmsum hætti, en litlum hluta aflans er landað á Þingeyri, Grímsey, Suðureyri og engu á Flateyri. Vinnsluskyldan er sömuleiðis með ýmsum hætti, ekkert er unnið á Flateyri og í Grímsey, lítið er unnið af aflanum á Þingeyri en þar fer fram vinnsla á aukaafurðum og á Flateyri fer vinnsla fram á gæludýrafóðri. Dæmi eru uppi um að vinnsluskyldu hafi ekki verið sinnt eða það hafi verið komið upp einhverri málamyndavinnslu og fiskur sem ætlaður hafi verið til vinnslu hafi lent á fiskmarkaði.

2. Allur fiskur taki verð á frjálsum markaði, þó þannig að 20% af andvirðinu renni til uppbyggingarsjóðs í viðkomandi byggðarlagi.

Með þessu er stuðlað að jafnræði íbúa og þeim sem vilja gera út í brothættri byggð. Í stað þess að byggðakvótinn renni í heilu lagi til aðila með sterka samningsstöðu sem jafnvel eru ekki með neinar tengingar við byggðina. Hafa verður í huga að leiguverð á þorskkílói nú í október 2023 er um 480 kr. þannig að það má færa rök fyrir því að aðili sem fær 400 tonna byggðakvóta árlega sé að fá liðlega 190 milljón króna styrk á ári með sínum rekstri. Auðvitað er hér um jaðarverð að ræða en það sýnir hve um mikil verðmæti er að tefla og því nauðsyn á því að vanda til verka og gæta jafnræðis.

3. Fiskvinnslur í viðkomandi sveitarfélagi hafi forgang að aflanum á 15% afslætti af meðalverði á markaði, en þá færi aðeins 5% til uppbyggingarsjóðs í byggðarlaginu.

Með þessu er búinn til raunverulegur hvati til þess að byggja upp arðsaman atvinnurekstur og komist hjá því að verið sé að setja upp hálfgerða leikmynd til þess að fá gríðarleg verðmæti í formi byggðakvótans.

4. Skipting á milli báta í hverju byggðarlagi verði þannig að helmingur veiðiheimilda skiptist jafnt á milli báta og hinum helmingnum yrði úthlutað í samræmi við landaðan afla á síðasta ári, en jafnframt yrði gerð krafa um að meirihluti áhafnarmeðlima verði með lögheimili í viðkomandi byggð.

Með þessu er tryggt að þeir sjómenn sem nýta aflann séu búsettir í brothættu byggðinni, en að stuðningurinn vegna t.d. Þingeyrar lendi ekki í vasa einhvers sem búsettur er í Kópavogi eða Vestmanneyjum. 

Sigurjón Þórðarson, 11.10.2024 kl. 09:10

6 Smámynd: Grímur Kjartansson

" Koma þarf á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum, en taka af vinnsluskyldu."
Þannig að treysta verður á hina frægu Grímseyjarferju að koma aflanum ferskum á "frjálsan" markað

Grímur Kjartansson, 11.10.2024 kl. 11:15

7 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er alveg ljóst að ef enginn fiskur fer um höfnina í Grímsey, þá verður úthlutun á byggðakvóta á forsendum byggðarinnar hálfgerð vitleysa. 

Sigurjón Þórðarson, 11.10.2024 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sautján?
Nota HTML-ham

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband