Leita í fréttum mbl.is

Réttarríkið í hættu - Stjórnvöld virða ekki dóma Hæstarétts

Hvernig sem á það er litið þá geta stjórnvöld ekki verið á réttri leið þegar þau um árabil virða að vettugi dóma Hættarétts hvað varðar stjórn fiskveiða og snúa þar að auki út úr áliti Mannréttanefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Í þessum málum er greinilegt að meirihluti þingmanna er ekki með huga við almannahagsmuni. Það er miklu frekar að bætt sé í en reynt að snúa ofan af óréttlætinu - Ætli hrókur sérhagsmunanna á þinginu sé ekki Þórarinn Ingi Pétursson formaður atvinnuveganefndar sem fór fyrir því að kjötvinnslur yrðu algerlega undanþegnar samkeppnislögum og við umræðu um kvótasetningu á grásleppunni þá afhjúpaði hann algert skilningsleysi á hugtakinu almannahagsmunir.

Hér er bréf sem þingmenn þjóðarinnar fengu sent fyrir 2 árum og voru þá upplýstir um lögleysuna sem er látin viðgangast.

                                                          Íslandi,  20. apríl 2022

 

 

 

 

Ágæti alþingismaður

 Við viljum vekja athygli þína á eftirfarandi málefni:

 Fiskveiðiauðlindin er helsta náttúruauðlind íslensku þjóðarinnar. Skipan fiskveiða og möguleikar einstaklinga til að nýta sér þessa auðlind snerta af þeim sökum lífshagsmuni þjóðarinnar. Miklu skiptir að jafnræðis sé gætt milli borgaranna og atvinnuréttindi fólks séu ekki skert umfram það sem brýna nauðsyn ber til.

Mikil umræða hefur verið meðal almennings um þessi mál að undanförnu, en á sama tíma hefur engin umræða farið fram um þau á Alþingi Íslands. Við viljum því gera grein fyrir því, sem fram kemur í þeim tveim dómum Hæstaréttar Íslands, þar sem reynt hefur á ákvæði laga um fiskveiðar og takmarkanir á réttindum borgaranna til að stunda fiskveiðar svo og framkvæmd og réttmæti kvótakerfisins.

Þeir dómar Hæstaréttar, sem um ræðir, eru dómur Hæstaréttar í málinu nr. 145/1998  Valdimar Jóhannesson gegn íslenska ríkinu frá 3.12.1998 og dómur Hæstaréttar í máli nr. 12/2000 sem er frá 6.4.2000 í málinu ákæruvaldið gegn Birni Kristjánssyni, Svavari Rúnari Guðnasyni og Hyrnó ehf.

Í dómi Hæstaréttar frá 3.12.1998 segir m.a:

„Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskistofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun sem leiðir af reglu 5.gr.laga nr. 38/1990 um úthlutun veiðiheimilda. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskistofna við Ísland. Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna geti að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru..“

Dómurinn segir því að kvótakerfið sé fyrirfarandi tálmun, sem komi í veg fyrir að drjúgur hluti landsmanna geti notið eðlilegs atvinnuréttar í sjávarútvegi. Bendir Hæstiréttur á að þessar ráðstafanir geti hafa verið afsakanlegar þegar kerfið var sett á en kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem slík skipan samræmist ekki stjórnarskrárákvæðum um jafnrétti borgaranna megi hún ekki vera ótímabundin.

Í dómi Hæstaréttar frá 6.4.2000 er vísað til þess að ríkir og augljósir almannahagsmunir séu bundnir við verndun og hagkvæma nýtingu fiskistofna á Íslandsmiðum. Þá segir í niðurstöðu meirihlutans að „aflaheimildir séu þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þessarar sameignar íslensku  þjóðarinnar sem nytjastofnarnir á Íslandsmiðum eru.“

Hér er kveðið á um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og það sé Alþingis að setja reglur sem varða ráðstöfun þessarar sameignar. Ekki er heldur með nokkru móti unnt að skilja meirihlutaatkvæðið svo að horfið hafi verið frá því sjónarmiði í dóminum í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu frá 3.12.1998 um að núgildandi lagareglur laganna séu bráðabirgðareglur, neyðarreglur sem ekki megi vera varanleg skipan.

Í sératkvæði Hæstaréttardómaranna Guðrúnar Erlendsdóttur og Haralds Henryssonar segir m.a.:

„Samkvæmt þessu er að grunni til byggt á því að úthlutunar njóti tiltekinn afmarkaður hópur á grundvelli veiðireynslu á níunda áratugnum. Þessi úthlutun er ótímabundin og felur í sér að aðrir eigi ekki kost á aðgangi að umræddum veiðum nema þeir kaupi  eða leigi aflaheimildir frá þeim, sem hafa fengið þær í úthlutun. Þannig útiloka reglur um úthlutun aflaheimilda til frambúðar aðra mikilvæga hagsmuni, sem telja verður að hafi sambærilega stöðu, og taka verður tillit til í heildarmati. Í þessu felst skýlaus mismunun, sem telja verður ómálefnalega og ósamrýmanlega þeirri skírskotun til heildarhagsmuna, sem fram kemur í 1.gr. laga nr. 38/1990. Er og óhjákvæmilegt að líta svo á, að til frambúðar leiði þessi skipan til myndunar sérréttinda, þrátt fyrir það yfirlýsta markmið laganna að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt og óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3.málslið sömu lagagreinar. Þótt aðrir eigi kost á að kaupa og leigja aflaheimildir af þeim sem úthlutun hafa hlotið , þykir það ekki geta réttlætt þá mismunun, sem felst í grundvelli kerfisins.

Að öllu þessu virtu verður að líta svo á, að ákvæði 7.gr. laga nr. 38/1990 um úthlutun aflaheimilda  séu í andstöðu við jafnræðisreglu 1.mgr. 65.gr. stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæði 1.mgr. 75.gr. hennar.“

Loks segir m.a. í sératkvæði Hjartar Torfasonar Hæstaréttardómara:

„Að virtu öllu þessu og öðru því, sem telja má á færi dómara, verður að líta svo á, að hin umdeilda skipan fái ekki staðist til frambúðar, sem lögmæt skipan á stjórn fiskveiða,“

Við viljum að lokum draga saman, ágæti þingmaður, nokkur grundvallaratriði, sem fram koma  í ofangreindum dómum Hæstaréttar, jafnt atkvæðum meiri- og minnihluta og einu dómunum sem fjallað hafa um gildi kvótakerfisins í fiskveiðum:

  1. Nytjastofnar við Íslandsstrendur eru sameign þjóðarinnar.
  2. Alþingi hefur valdheimildir til að takmarka aðgengi að fiskveiðum tímabundið til þess að vernda fiskistofna og því aðeins að þann tíma séu aðrar leiðir til þess ekki færar.
  3. Dómarnir gera það alveg ótvírætt að úthlutaðar veiðiheimildir njóta ekki verndar eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar.

Lögin um vernd fiskistofna, sem takmörkuðu hámarksafla á Íslandsmiðum voru sett árið 1983 (l. nr. 82/1983) og komu til framkvæmda við skiptingu hámarksafla árið 1984 eða fyrir 38 árum síðan. Allan tímann hefur úthlutun fiskveiðiheimilda að meginstefnu til byggt á þeim ákvæðum og viðmiðunum, sem sett voru í upphafi. Engin breyting hefur verið gerð á þessari skipan og hefur löggjafinn aldrei sýnt fram á það að, aðrar leiðir við úthlutun fiskveiðiheimilda séu ekki færar. Að því leyti er kerfið í dag andstætt niðurstöðu dóms Hæstaréttar í Hæstaréttarmálinu nr. 145/1998 frá 3.12.1998.

Takmarkað aðgengi þorra landsmanna til nýtingar sameiginlegra nytjastofna á Íslandsmiðum felur í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem og atvinnufrelsisákvæði hennar. 

Gera verður þá kröfu til löggjafans, að hann taki tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í ofangreindum dómum Hæstaréttar og leiti annarra leiða við úthlutun fiskveiðiheimilda, sem standast ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi og jafnræði borgaranna.

Við teljum það með ólíkindum, að tregða skuli vera á Alþingi við því að setja þau ákvæði í stjórnarskrá að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi ótvírætt kveðið á um það í ofangreindum dómum.

Við vonum, ágæti þingmaður, að þú kynnir þér þessi mál og erum tilbúin til að eiga viðræður við þig og/eða þingflokk þinn til að kynna frekar þau sjónarmið, sem hér eru sett fram og þær lagalegu og hugmyndafræðilegu forsendur sem gera nauðsynlegt að þegar í stað verði fiskveiðistjórnarkerfið tekið til gagngerðrar endurskoðunar.

Vert er að geta þess síðan í lokin, að ítrekað kemur fram í skoðanakönnunum og hefur gert í hartnær fjóra áratugi, sem kerfið hefur verið við líði, að mikill meirihluti þjóðarinnar, um og yfir 75% hennar, er andsnúinn fiskveiðistjórnarkerfinu. Það skýtur því skökku við að umræður um þessi mál skuli ekki vera meiri á Alþingi og að Alþingi skuli aldrei hafa brugðist við þessu ákalli þjóðarinnar og hefur að því leyti orðið gjá á milli þings og þjóðar í þessu máli.

 

Virðingarfyllst,

 

 

Álfheiður Eymarsdóttir

Jón Kristjánsson

Jón Magnússon

Jónas Elíasson

Lúðvík Emil Kaaber

Páll Gústafsson

Ólafur Örn Jónsson

Pétur Guðgeirsson

Sigurjón Þórðarson

Sveinbjörn Jónsson

Tryggvi Agnarsson

Valdimar Jóhannesson

Þórður Már Jónsson

 

 

​


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband