Leita í fréttum mbl.is

Sævar Gunnarsson í þoku og kjaftæði

Sævar tjáði sig um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum í Speglinum í kvöld. Hann sagði að stefna sín væri skýr en samt var viðtalið lítið annað en þokukennt kjaftæði með og á móti kvótakerfinu. Hann hefur leikið þann leik að vera með kápuna á báðum öxlum alltof lengi og verið bæði með og á móti kvótakerfinu jafnvel í sama viðtalinu.

Hann fullyrti að hann væri meðmæltur aflamarkskerfi og að alls ekki mætti veiða umfram ráðgjöf og sérstaklega ekki á skötusel sem væri á válista. Ekki veit ég hvar sá listi er nema ef vera skyldi í kolli Sævars sjálfs.

Fyrir 2-3 árum fullyrti sami maður að það væri eitthvað að fiskveiðistjórn Hafró en núna þegar raunverulega á að breyta því þannig að sjómenn fyrir norðan og vestan losni úr því að vera leiguliðar sægreifa á Suðurlandi rís formaður Sjómannasambands Íslands upp gegn öllum breytingum.

Sævar Gunnarsson ætti að vita betur en margur annar um delluna og árangursleysið í ráðgjöfinni sem stýrir veiðum þar sem hann sat í nefnd sjávarútvegsráðherra sem hafði það verkefni að meta árangur og það hvort breyta þyrfti svokallaðri aflareglu til þess að það næðist árangur við fiskveiðistjórnina. Málið var að um aldamótin höfðu stofnarnir skyndilega mælst minni en Hafró spáði fyrir um og það þrátt fyrir blóðugan niðurskurð í aflaheimildum á 10. áratugnum.

Nefndin sem Sævar sat í mat það svo að minnka þyrfti veiðar enn meira til að geta veitt meira seinna! Hámarki náði þessi geðveiki þegar Ragnar Árnason og félagar í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mæltu með því að taka alveg fyrir þorskveiðar um mitt sumar 2007 til þess að fá miklum mun meira seinna upp úr sjónum. Forsendan var sú að þjóðarbúið stæði svo afskaplega vel!

Það er kominn tími til að Sævar og aðrir kvótavinir verði látnir rökstyðja það sem er svona ofboðslega gott við aflamarkskerfið. Staðreyndirnar tala sínu máli grímulaust og þær segja að kerfið hafi brugðist. Þorskaflinn núna er bara þriðjungur af því sem hann var fyrir daga kerfisins. Hvers konar árangur er það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband