Leita í fréttum mbl.is

Útvarp Saga skiptir máli

Útvarp Saga skiptir miklu máli í þjóðfélagsumræðunni.  Ástæðan fyrir mikilvægi Útvarps Sögu er fyrst og fremst sú að umræðan er öllum opin, hver sem er getur hringt inn og látið sína skoðun í ljós. Sömuleiðis hafa stjórnendur stöðvarinnar verið óhræddir við að fá til viðtals fólk sem ekki fær áheyrn í öðrum fjölmiðlum.  Í aðdraganda hrunsins fór fram gagnrýnin umræða um stöðu fjármálakerfisins sem fór mjög lítið fyrir á öðrum fjölmiðlum. Eitt er víst að enginn sem hlýddi á magnaða pistla Eiríks Stefánssonar kom á óvart það álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að kvótakerfið bryti í bága við jafnræði borgaranna, þó svo að "fræðasamfélagið" og stjórnmálastéttin hafi látið í veðri vaka að álitið kæmi á óvart. 

Í umræðunni um Icesave dró Útvarp Saga vagninn í að krefjast gagnsæis og að þjóðin fengi að segja sitt álit á samningi sem, fræðisamfélagið, fjölmiðlar, álitsgjafar, aðilar vinnumarkaðarins, stærstu stjórnmálaöfl og Besti flokkurinn vildi samþykkja án nokkurrar umræðu.

Greinilegt er að ýmsir  Evrópusinnar eru uggandi um áhrifamátt opinnar umræðu sem fram fer á Útvarpi Sögu.  Ekki verður Útvarp Saga sökuð um að reka einhliða áróður gegn innlimun landsins í Evrópusambandið þar sem um nokkurt skeið hefur verið á dagskrá stöðvarinnar sérstakur þáttur, Nei eða já, þar sem kostir og gallar aðildar landsins að Evrópusambandinu eru tíundaðir

Nýlega var tekin sú erfiða ákvörðun að segja tveimur velmetnum starfsmönnum upp á stöðinni. Í framhaldinu hafa þeir sem óttast stöðina reynt að gera uppsagnirnar tortryggilegar og magna upp einhverja óvild í kringum málið og í garð Útvarps Sögu.  Skýringin sem gefin var á uppsögnunum var að hlustun hefði ekki verið í samræmi við væntingar. Að mínu viti stóðu fjölmiðlamennirnir sig mjög vel, sem um er rætt. Efnistök og framsetning þeirra var hins vegar ekki í miklu frábrugðin því sem gerðist í sambærilegum þáttum á öðrum útvarpsstöðvum s.s. Bylgjunni og Rás 2, sem hafa yfir mun meiri mannskap, útbreiðslu og fjármunum að ráða. Það var því nokkuð ljóst að á brattann var að sækja í samkeppninni, enda leikurinn ójafn. 

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða stefnu Útvarp Saga muni taka, en það er sjaldnast lognmolla á stöðinni enda skiptir hún máli.


Bloggfærslur 9. júlí 2011

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband