Leita í fréttum mbl.is

Líffræðingur leiðréttir skipulagshagfræðing

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er án efa einn sá efnilegasti af formönnum Fjórflokksins en hann var m.a. sá eini af fjórmenningunum sem tók ábyrga afstöðu í Icesavemálinu.

Á dögunum heyrði ég ágætt viðtal á Útvarpi Sögu við formann Framsóknarflokksins þar sem hann tíundaði m.a. möguleika Íslands í að auka fiskeldi sem skipt gæti ekki einungis máli fyrir landsmenn heldur heimsbyggðina. Sigmundur hélt því fram að aukið fiskeldi yrði mikilvægur liður í að uppfylla aukna próteinþörf mankynsins, samfara fjölgun þess. 

Ekki dreg ég í efa mikla möguleika landsmanna við að ala fisk en hins vegar er það víðs fjarri raunveruleikanum að telja að eldið muni bæta eitthvað sem um muni við að uppfylla próteinþörf mannkynsins. Það er nokkuð ljóst að þær fisktegundir sem koma til greina hér í eldi eru þær sem lifa nú þegar hér við land. Sú af þeim sem hefur gengið hvað best að nýta fóður sér til vaxtar er laxinn.  Helstu rök Sigmundar Davíðs voru að þar sem hann taldi að búið væri að fullnýta helstu fiskistofna heimsins væri vaxtarbroddur í auknu fiskeldinu.

Í þessari umræðu gleymdist að eldisfiskur er gjarnan fóðraður með fiski og í laxinum þar sem náðst hefur hve mestur árangur við að nýta fóðrið þarf a.m.k. 3 kg af fiski til þess að búa til eitt kg af laxi. Umrætt orkutap er ekkert sem á að koma á óvart heldur er þetta eitt af grunnlögmálum vistfræðinnar, að orka tapast eftir því sem farið er ofar í fæðupýramídann. Bent hefur verið á þann möguleika að nýta í auknum mæli í fiskeldið næringarefni sem koma beint úr jurtaríkinu. Skýrsla norsku Hafró gefur til kynna að ef fóðrið í norska eldislaxinn, sem er  um 1 milljónar tonna  framleiðsla á ári, ætti að koma úr jurtaríkinu þyrfti að nýta til þess 600.000 hektara af hveitiökrum í BNA og 6,5 milljón hektara af sojaökrum Brasilíu. Augljóst er að afurðir umræddra akra myndu nýtast mun betur til  að næra mannkynið án viðkomu í meltingarvegi laxins.

Þó að greinilegt sé að við eldi á fiski tapist orka og prótein felur eldið í sér möguleika á nýtingu á afskurði og fisktegundum, sem alla jafna teljast ekki matfiskur, til fóðurgerðar. Með öðrum orðum gufar orkan og próteinið upp en krónunum getur fjölgað í fiskeldinu með því framleiða dýran fisk úr því sem fæst minna fyrir. Síendurteknar fullyrðingar, ekki einungis Sigmundar Davíðs, heldur ýmissa „sérfræðinga“ um gríðarlega sóknarmöguleika fiskeldisins vegna meintrar fullnýtingar og ofveiði á villtum fiskistofnum er nokkuð sem gengur alls ekki upp þegar betur er að gáð.

Í allri þeirri umræðu sem nú fer fram um hvernig þjóðin geti komið sér út úr kreppunni virðast leiðtogar Fjórflokksins, allir sem einn, sammála um að hunsa algerlega vel ígrunduð rök þeirra sem telja óhætt að veiða mun meira af þorski.  Ég tel rétt að áður en Sigmundur afskrifi algerlega auknar þorskveiðar og skipuleggi hér eldi í öllum fjörðum ætti hann fara yfir þá brennandi spurningu hvers vegna þorskaflinn nú er brot af því sem að hann var áður en núverandi nýtingarstefna var tekin upp - þ.e. svipaður og hann var árið 1913.


Bloggfærslur 19. maí 2011

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband