Leita í fréttum mbl.is

Veruleikafirrtur Háskóli Íslands

Í stað þess að Háskóli Íslands sé miðstöð skapandi og gagnrýninnar hugsunar virðist sem hann hafi að einhverju marki lent í því að vera áróðurshreiður þar sem blekkingum er bunað út á færibandi til þess, að því er virðist, að verja mjög þrönga sérhagsmuni.  

 

Prófessorinn Ragnar Árnason hefur um áratugaskeið haldið á lofti ágæti eigin fiskihagfræðikenninga. Kjarni kenninganna er að það leiði sjálfkrafa til þjóðhagslegrar hagkvæmni að einkavæða réttinn til fiskveiða og gera hann framseljanlegan. Helsti gallinn við kenningar um kvótakerfið er að það brýtur í bága við mannréttindi og skilar stöðugt færri fiskum á land. Upphaflegt markmið kerfisins var að losna við náttúrulegar sveiflur í afla og skila jafnstöðuafla upp á 500 þúsund tonn. Útgefinn kvóti fyrir núverandi fiskveiðiár er einungis 160 þúsund tonn og er rétt um þriðjungur þess sem hann var fyrir daga kvótans. Þrátt fyrir framangreindar staðreyndir virðist sem hópur hagfræðinga í Háskólanum neiti að horfast í augu við raunveruleikann og haldi áfram að boða einhverja hagkvæmni og meintan árangur, en skömmu fyrir hrun fjármálakerfisins boðaði Ragnar ásamt félögum sínum að hagkvæmast væri að hætta algerlega þorskveiðum á þeim forsendum að þjóðfélagið stæði efnahagslega svo afskaplega vel!   Hópurinn  hefur nú með mjög skömmum fyrirvar boðað til tveggja „málþinga“ þar sem tryggt verður að engri gagnrýni á kvótakerfið verði hleypt að.  Markmið málþinganna virðist alls ekki að vera kynna nýjar rannsóknir eða uppgötvanir heldur miklu frekar að hafa áhrif á umræðu um fyrirhugaðar breytingar á kerfi sem brýtur á  jafnræði landsmanna.     

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. mars sl. mátti skilja á prófessor í Háskóla Íslands að kvótakerfið í sjávarútvegi sem hefur bæði leitt til helmingi minni veiði á botnfiski á síðustu tveimur áratugum og til algerrar óvissu um atvinnuréttindi íbúa hefði nákvæmlega ekkert með hnignun sjávarbyggðanna að gera. Spyrja má í framhaldinu hvort það sé almennt mat fræðimanna í Háskóla Íslands að ef það sem eftir er af veiðiheimildum í sjávarbyggðunum væri skert eða selt í burtu hefði það ekkert að gera með „þróun“ byggðar.  

Umhugsunarefni er hvernig prófessorinn birtir og túlkar gögn í umræddri grein og hleypur algerlega yfir skýrslur Byggðastofnunar og rök þeirra sem hafa bent á það sem ætti að liggja í augum uppi, að ef undirstöður samfélags manna eru veiktar hefur það bein áhrif á búsetuna. Ef svara á þeirri spurningu hvort kvótakerfið hafi haft áhrif á búsetu væri nærtækt að skoða mannfjöldaþróun í sjávarbyggðum Vestfjarða í samhengi við landaðan afla í viðkomandi byggðum. Það er ekki gert, heldur er birtur með greininni samanburður á hlutdeild Vestfjarða í íbúatölu Íslands frá árinu 1911 sem endurspeglar fyrst og fremst vöxt höfuðborgarinnar umfram aðra landshluta. Sömuleiðis birtir prófessorinn samanburð á íbúatölu á Vestfjörðum og heildarþorskafla landsmanna. Þessi framsetning er vægast sagt undarleg þar sem tölurnar endurspegla ekki einungis þær breytingar sem hafa orðið í sjávarbyggðum Vestfjarða heldur einnig í sveitum. Miklu nær væri að bera saman íbúaþróun sjávarbyggðanna á Vestfjörðum og afla sem landað er í þeim. Ef það er gert sést að veruleg fjölgun varð á áttunda áratug síðustu aldar um leið og þorskaflinn jókst og hélst sú þróun fram á níunda áratuginn en fækka tók í byggðunum á þeim tíunda um leið og skornar voru niður veiðiheimildir og byggðirnar gerðar fallvaltari með sölu veiðiheimildanna. Þessi hnignun hefur haldið áfram fram á þennan dag. Til að meta stöðu byggðanna og neikvæð áhrif kvótakerfisins er ekki síður áhugavert að skoða aldurssamsetningu íbúa og fækkun þeirra sem eru á barneignaraldri og eru hvað hreyfanlegastir á vinnumarkaði. Sláandi er að sjá gríðarlega fækkun yngra fólks í sjávarbyggðunum á síðasta áratug en í dreifbýlinu er það einkum yngra fólkið sem hleypir heimdraganum rétt eins og gildir annars staðar á Íslandi í þeim þrengingum sem ganga yfir landið.

Ég er alfarið þeirrar skoðunar að áhrif misheppnaðrar fiskveiðistjórnunar eigi skilið betri vinnubrögð en þau sem hópur hagfræðinga stundar nú innan Háskóla Íslands.  Þjóðinni er þar boðið upp á lítið annað en ómerkilegan og illa rökstuddan áróður.


Bloggfærslur 11. mars 2011

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband