Leita í fréttum mbl.is

Fyrrverandi forsetar gefa sjómannaforustunni falleinkunn

Tveir fyrrverandi forsetar Farmanna- og fiskimannasambandsins sitja í framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins en framkvæmdastjórnin sendi frá sér eftirfarandi ályktun í dag:

Sjómannaforystan með þá Sævar Gunnarsson formann sjómannasambandsins og  Árna Bjarnason formann Farmanna- og fiskimannasambands í forsvari, hafa sýnt það með yfirlýsingum sínum vegna skötuselsmálsins, að hún er úrelt og komin  gjörsamlega úr takti við sjómenn og fólkið í landinu.

Það sætti mikilli furðu  ef að þessum foringjum tækist að sannfæra sjómenn um að það þjóni hagsmunum sjómanna að viðhalda leigukvótakerfi undir eignahaldi og forystu LÍÚ, þar sem starfandi sjómönnum er gert að greiða okurverð fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind Íslendinga til framtíðar.

Ef þessi stefna er orðin sérstök kjarastefna  sjómannaforystunnar, þá má vorkenna sjómannastéttinni undir forystu þeirra.

24. mars, 2010.

Sigurjón Þórðarson, formaður.

Ásta Hafberg, varaformaður.

Grétar Mar Jónsson, ritari.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður fjármálaráðs.


Bæjarstjórinn í Vesturbyggð bæði á móti íbúum og nýbúum

ÞAÐ getur verið snúið að átta sig á því hvert helstu forystumenn Samfylkingarinnar stefna. Forsætisráðherrann bauð þjóðinni upp á breytingar á fiskveiðistjórninni fyrir síðustu alþingiskosningar og festi síðan stefnuna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að ríkisstjórnin hrindi stefnunni í framkvæmd vill forsætisráðherrann láta fara fram sérstaka auka-þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það er mjög sérstakt, þar sem hún hefur haft uppi stór orð um einu þjóðaratkvæðagreiðsluna sem farið hefur fram á lýðveldistímanum um einstök mál, þ.e. að kosningarnar væru algjör markleysa og tímaeyðsla.

Á meðan á þessum mótsagnakennda farsa stendur skrifar bæjarstjóri einn á Vestfjörðum í slagtogi við varaþingmann Sjálfstæðisflokksins grein í Morgunblaðið þann 16. mars sl., þar sem þau mótmæla markaðri stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Það sem gerir málið eftirtektavert og stórundarlegt er að bæjarstjórinn sem um ræðir, Ragnar Jörundsson, barðist með oddi og egg fyrir síðustu alþingiskosningar, sem frambjóðandi Samfylkingarinnar, fyrir sjávarútvegsstefnu flokksins sem hann nú er á móti.

Kvótakerfið hefur leikið Vesturbyggð mjög illa en það sýnir best fækkun íbúa í sjávarbyggðunum Patreksfirði og Bíldudal. Íbúum hefur fækkað um fjórðung síðasta áratuginn á Patreksfirði og Bíldudal sem er bein afleiðing kvótakerfisins. Á áratugnum urðu miklar úrbætur á samgöngum og íþróttaaðstöðu í þessum einu fallegustu byggðum landsins.

Óhætt er því að segja að kerfið sem bæjarstjórinn vill með öllum ráðum halda í, þrátt fyrir mannréttindabrot sem því fylgir, hafi fækkað íbúum sveitarfélagsins. Bæjarstjórinn góði lagði ofuráherslu á í greininni að koma yrði með öllum ráðum í veg fyrir, að útgerðir á Vestfjörðum gætu veitt skötusel með því að greiða hæfilegt gjald í tóman ríkissjóð. Hann vildi halda í lénsfyrirkomulagið sem felur í sér að þeir sem haldi til veiða á skötuselnum þurfi að leigja veiðiheimildir af útgerðum á Suðurlandi en þegar fiskurinn var kvótasettur veiddist hann nær eingöngu við suðurströndina. Það er ekki langt síðan skötuselur fór að veiðast í einhverjum mæli fyrir vestan og er hann því nokkurs konar nýbúi á svæðinu sem bæjarstjórinn vill greinilega ekki fá á bryggjuna sína.

Þegar litið er yfir málflutning helstu leiðtoga Samfylkingarinnar í lands- og sveitarstjórnarmálum hlýtur að vakna sú spurning hvort þeir vilji láta taka sig alvarlega?

 


Bloggfærslur 24. mars 2010

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband