Leita í fréttum mbl.is

Endurreisnar-áætlunin í uppnámi

EF ÞAÐ er eitthvað sem landsmenn ættu að hafa lært af hruninu er það það að treysta varlega yfirlýsingum fjórflokksins um stöðu mála. Rétt fyrir hrun þegar öll sund voru að lokast fóru þáverandi leiðtogar stjórnarflokkanna um heiminn með þann boðskap að staðan í íslensku efnahagslífi væri traust. Fyrir síðustu kosningar leyndi núverandi formaður VG þjóðina vísvitandi upplýsingum um stöðu Icesave-málsins og stefndi síðan að því sl. sumar að Alþingi samþykkti Svavarssamninginn óséðan.

Núna halda þingmenn Samfylkingarinnar og hluti þingmanna VG því blákalt fram að forsetinn hafi sett endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar í uppnám fyrir það eitt að setja málið í lýðræðislegan farveg og í dóm þjóðarinnar.Í framhaldi af þeirri staðhæfingu er rétt að huga að því hver endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar er. Hún er fátækleg, ekki er annarri áætlun til að dreifa en þeirri sem samin er sameiginlega af íslenskum stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, AGS.Lykillinn að því að hún gangi upp er að það verði gríðarlega jákvæður viðskiptajöfnuður næsta áratuginn eða afgangur upp á vel ríflega þá upphæð sem fæst fyrir allan útflutning á fiski. Þennan afgang er ætlað að nota til að greiða af erlendum lánum, m.a. Icesave-lánunum. Endurreisnaráætlun ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir því að viðskiptjöfnuðurinn þyrfti að verða jákvæður um liðlega 150 milljarða króna til þess að dæmið gengi upp. Nýjar tölur frá Hagstofu Íslands gefa til kynna að niðurstaðan verði helmingi verri en endurreisnaráætlunin ætlaði. Ekki er það vegna þess að afgangurinn sé lítill. Sannarlega er um Íslandsmet að ræða enda hefur innflutningur dregist gríðarlega saman og er t.d. bílainnflutningur einungis um 17% af því sem hann var að meðaltali á síðasta áratug. Ástæðan er einfaldlega sú að áætlun ríkisstjórnarinnar er óraunhæf.Núna virðist sem ríkisstjórnin ætli að grípa til þess billega ráðs að kenna því um að hlutirnir gangi ekki samkvæmt áætlun vegna þess að þjóðin fái að segja sína skoðun á vafasömum Icesave-skuldbindingum sem greinilega virðast vera þjóðinni ofviða.

Það er orðið löngu tímabært að ríkisstjórnin horfist í augu við vandann og setji upp raunhæfa áætlun sem hlýtur að fela í sér sanngjarna eftirgjöf skulda og að auka tekjur þjóðarbúsins - en það verður ekki gert skjótt nema með því að auka fiskveiðar.


Bloggfærslur 12. janúar 2010

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband