Leita í fréttum mbl.is

Hagfræðistóðið á 1. maí

 Í skugga hrunsins gengur verkalýðshreyfingin núna fram með kröfu um réttlátara samfélag. Menn vilja gera upp sakir við þá sem bera ábyrgð á hruninu, s.s. útrásarvíkinga, keypta fjölmiðlamenn og stjórnmálastéttina sem var meira og minna á víkingajötunni. Björgvin G. Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Illugi Gunnarsson rifu í sig úr jötunni.

 Hins vegar hefur lítil umræða enn sem komið er beinst að verkalýðshreyfingunni sjálfri en hún hefur lent í klónum á hagfræðingagengi, mönnum eins og Ásmundi Stefánssyni sem fjarlægði orðræðuna frá venjulegu launafólki, gerði hana illskiljanlega, og valsaði síðan úr hreyfingunni, var m.a. ríkissáttasemjari, og inn í banka og sjóði.

 Hagfræðingarnir hjá ASÍ voru í samkrulli með leppum stórfyrirtækjanna og útrásarvíkinganna í fjáfestingum í fyrirtækjum sem greiddu ofurlaun og ástunduðu vafasama viðskiptahætti eins og komið hefur á daginn. ASÍ tók aldrei kröftuglega undir tillögur til breytinga á kvótakerfinu sem markaði upphaf hrunsins fyrir meira en 20 árum, hefur lagt heilu sveitirnar í rúst og brýtur í bága við mannréttindi. Hagfræðingarnir hjá ASÍ trúðu á að kerfið væri forsenda hagræðingar og uppbyggingar fiskistofna og hafa ekki hleypt í gegn málefnalegri umræðu, hvað þá uppbyggilegri gagnrýni.

 Það verður fróðlegt að fylgjast með ræðu Gylfa Arnbjörnssonar á eftir og sjá hvort hann misnotar aðstöðu sína og hvetur til inngöngu í Evrópusambandið en með því grefur hann undan fjölda starfa í sjávarútvegi og úrvinnslu í landbúnaði. Það er glapræði að ætla að ganga í Evrópusambandið og boða það með núverandi kerfi í sjávarútvegi sem gerir skuldugum fyrirtækjum sem vart eru rekstrarhæf kleift að selja fiskimiðin úr landi.

 Núna, 1. maí 2009, á baráttudegi verkalýðsins, er tímabært að byggja réttláta launaþegahreyfingu. Minna má það ekki vera. Mér finnst Vilhjálmur Birgisson vera trúverðugur leiðtogi sem hreyfingunni veitti ekki af að fá í alfremstu röð sína. Stefna hagfræðinganna var alltaf andvana fædd, við þurfum menn sem koma úr grasrótinni, Vilhjálm Birgisson sem hefur staðið fyrir mikilli tiltekt í Verkalýðsfélagi Akraness.

 Megi baráttan lifna og lifa. Til hamingju með daginn.


mbl.is „Sannleikur grundvallaratriði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband