Leita í fréttum mbl.is

Vegna vankunnáttu RÚV

Ég var með öðrum frambjóðendum í kjördæmaþætti í sjónvarpinu áðan. Það var vandasamt verk hjá Þóru Arnórsdóttur að stjórna þættinum en mér fannst hún ráða býsna vel við það. Mér þótti þó vænt um að fá ítrekaða spurningu um fiskveiðistjórn þar sem spyrillinn opinberaði þá skoðun að 100.000 tonna aukning á þorskveiðiheimildum myndi þýða að við sætum uppi með gríðarlegt magn af óseljanlegri vöru. Það er með ólíkindum að því sé haldið fram að Íslendingar ráði heimsmarkaðsverði á hvítfiski og að öll aukning verði til þess að frystigeymslur landsmanna dugi ekki fyrir aflaaukningunni og við sitjum uppi með óseljanlega vöru.

Þetta er sérkennilegt viðhorf sem endurspeglar ranghugmyndir fréttamanna. Málið er að undanfarið hefur svo mikið dregið úr veiðum í meintu uppbyggingarstarfi þorsksins að þorskveiðin er rétt svipur hjá sjón miðað við það sem hún var fyrir nokkrum árum. Íslendingar hafa glatað ákveðnum mörkuðum, bara það að skera úr liðlega 200.000 tonnum í 130.000 tonn hafði alvarlegar afleiðingar fyrir markaðina. Það er ekki fæðuskortur í heiminum og ef ekki berst fiskur borða menn annað. Þess vegna þarf að vinna markaðina aftur. Það sem Íslendingar einbeittu sér að - eðlilega - voru dýrustu bitarnir á markaðnum sem verða að vonum harðast úti þegar efnahagsþrengingar ganga yfir heiminn.

Mér fyndist eðlilegt að fréttamenn RÚV beindu þeirri spurningu til sjálfstæðismanna, s.s. Ásbjörns Óttarssonar, hvernig þeir rökstyddu það að aflamarkskerfi væri betra en sóknarmarkskerfi eins og er í Færeyjum. Staðreyndin er sú að í Færeyjum koma 90% útflutningstekna af fiskveiðum - ég minni á sóknarmarkskerfi Færeyinga - og það eru einmitt Færeyingar sem geta lánað okkur beinharða milljarða - og það þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum eigin kreppu ekki alls fyrir löngu. Færeyingar hafa veitt langt umfram ráðgjöf og m.a. á umliðnum árum tugi prósenta umfram ráðgjöf en SAMT er þorskstofninn á uppleið. Að vísu er ýsustofninn á niðurleið.

Þjóð sem er á hausnum getur ekki leyft sér að ana áfram í sömu villunni þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur reyni að setja undir sig hausinn og móast við.


Bloggfærslur 6. apríl 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband