Leita í fréttum mbl.is

Villi Egils er góður drengur

Villi Egils er góður drengur eins og allt hans fólk. Mér fannst Davíð vega nokkuð ómálefnalega að honum en þó eru verk Villa fjarri því að vera hafin yfir gagnrýni þar sem hann átti sjálfur ríkan þátt í því hvernig fór með afskiptum sínum af stjórnmálum. Í aðdraganda hrunsins gerði Villi lítið úr þeim varnaðarorðum sem beindust að skuldsetningu þjóðarbúsins og hélt því statt og stöðugt fram að eignir Íslendinga erlendis væru vanmetnar. Hann reyndist hafa rangt fyrir sér.

Ef ég man rétt boraði Villi gat á sparisjóðakerfið og gerði með afskiptum sínum af lagasetningu á þingi um fjármálafyrirtæki stofnfé að ígildi hlutabréfa. Það sjá allir hvert það leiddi okkur. Villi beitti sér fyrir því að nema úr gildi öll höft sem takmörkuðu framsal veiðiheimilda. Það er stjarnfræðilega vitlaust að hægt sé að framselja veiðiheimild norður í Grímsey til fyrirtækis í Grindavík eða Vestmannaeyjum eða Grundarfirði. Villi gerði það engu að síður enda var það í samræmi við hagfræðibókina sem hann las í Ameríku.

Ef þjóðin ætlar út úr hruninu sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi yfir hana verður að fara fram hreinskipt uppgjör og gegnumlýsing á þeim kerfum sem hafa verið við lýði í samfélaginu, m.a. kvótakerfinu, lífeyrissjóðakerfinu og stjórnmálakerfinu.

Í sjálfu sér var þetta ágætisbyrjun hjá Króksaranum Villa og Sigurði Erni Ágústssyni frá Geitaskarði, fyrrum framherja Ungmennafélagsins Hvatar. Svo er að sjá hvert framhaldið verður.


Bloggfærslur 29. mars 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband