Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðismenn klaufar

Sjálfstæðismenn hafa ekki verið klókir í málflutningi sínum varðandi Icesave. Í stað þess að svara stjórnarliðum af yfirvegun hafa þeir tekið þátt í lágkúrulegum skylmingum stjórnarliða og svarað í sömu mynt. Í þessum hanaslag hefur t.d. Guðfríður Lilja, sem ég leyfi mér að efast um að hafi sterka sannfæringu fyrir málinu, harðnað í afstöðu sinni með alvondu máli þegar verið er að skrifa upp á efnahagslega aftöku landsins.

Að einhverju leyti má skilja gremju Guðfríðar og að hún missi stjórn á sér þegar hún stendur í orðaskaki við kúlulánaliðið og fyrrum sjóðstjóra í Sjálfstæðisflokknum sem setja sjálf sig á bekk alsaklausra fórnarlamba.

Ef menn ætla að ná árangri í þessu Icesave-máli verður að beita röksemdafærslu og láta þá sem endilega vilja skrifa upp á skuldahalann rökstyðja betur hvað sé svona óskaplega gott við það - bara til þess eins að fá lán þegar það eru einmitt lánin sem eru að sliga samfélagið.


Steingrímur einnota

Jóhanna hefur látið Steingrím kyngja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Icesave og Evrópusambandinu. Það er ósennilegt að hún hafi meiri brúk af honum og það henti ekkert að nota VG áfram, enda gætu þeir þvælst fyrir stóriðjudraumum og viljað láta rannsaka frekar aðdraganda hrunsins en þar á Samfylkingin hins vegar bandamenn í Sjálfstæðisflokknum, í að gera ekki of mikið úr hinu liðna.

Leiðtogar Samfylkingarinnar vita að ef ætlunin er að fara inn í Evrópusambandið er vænlegra að vinna að því með forystu Sjálfstæðisflokksins sem hefur daðrað við ESB - ef sérlausn fengist fyrir LÍÚ sem gæti þess vegna falist í makríl og marglyttu.

Sá búhnykkur sem fengist með því að söðla um væri að VG væri ótrúverðugt og Sjálfstæðisflokkurinn myndi að öllum líkindum klofna.


Bloggfærslur 20. október 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband