Leita í fréttum mbl.is

Mun Solla lítilsvirða baráttu Guðmundar?

Í Mogganum í dag er mikill kálfur til minningar um að hálf öld er liðin frá útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur. Þjóðin sameinaðist einarðlega í baráttu fyrir yfirráðum fiskveiðiauðlindarinnar enda var litið á baráttuna sem forsendu efnahagslegs sjálfstæðis nýfrjálsrar þjóðar. Helsti andstæðingur Íslendinga var Bretland sem hafði ráðið heimshöfunum um langt skeið. Þrátt fyrir að Íslendingar ættu við ofurefli að etja höfðu Íslendingar betur í þeirri skák sem ekki var síður leikin á tafli alþjóðlegra stjórnmála en á fiskimiðunum við strendur landsins.

 

Þorskastríð

 

Á þessum tímamótum er rétt að fara með gagnrýnum hætti yfir það hvað sigurinn í þorskastríðinu  færði þjóðinni - sigurinn sem svo margir færðu fórnir til að vinna.

Árið 1958 var þorskafli sem kom í hlut Íslendinga liðlega tvöfalt meiri en það sem heimilt er að veiða á Íslandsmiðum nú. Heildarþorskafli á Íslandsmiðum árið 1958 var fjórfalt meiri en hann er í ár en það sem kom í hlut útlendinga einna var heldur minna magn en Íslendingar fiskuðu.

Árið 1958 var miklum mun meira atvinnufrelsi en nú fyrir Íslendinga til að stunda fiskveiðar.  Lögreglan og Landhelgisgæslan voru þá ekki í þeim verkum að elta uppi öldunga sem vilja renna færi fyrir fisk eins og nú.

Nú 50 árum eftir að hetjur Íslands börðust um yfirráð yfir fiskimiðunum sitjum við uppi með kvótakerfi sem brýtur í bága við mannréttindi og býður upp á þann möguleika að sameiginleg auðlind verði seld úr landi ef opnað verður á erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi en raddir þess efnis koma úr ólíklegustu áttum.

Helsta hetja Íslendinga, að þeim Gretti og Ólafi Stefánssyni meðtöldum, Guðmundur Kjærnested, lét hafa eftir sér í viðtali við sjávarútvegsritið Ægi fyrir nokkrum árum að hann hefði ekki staðið í baráttunni um landhelgina svo árum skipti ef hann hefði getað séð fyrir hvert þetta óheillafiskveiðistjórnunarkerfi hefði þróast. 

Ábyrg stjórnvöld ættu auðvitað að heiðra minningu fjölmargra stjórnmálaskörunga, s.s. Lúðvíks Jósepssonar, Ólafs Jóhannessonar og Matthíasar Bjarnasonar, og frægra skipherra, s.s. Eiríks Kristóferssonar og Guðmundar Kjærnested.

Með því að halda áfram með óbreytt kvótakerfi er verið að sverta áralanga baráttu Íslendinga sem framangreindir sómamenn stóðu um skeið í fylkingarbrjósti fyrir.  

Það væri gríðarlegur áfellisdómur yfir íslenskum stjórnmálamönnum, s.s. Þorsteini Pálssyni, Halldóri Ásgrímssyni, Einari Kristni Guðfinnssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ef sagnfræðingar framtíðarinnar komast að því að viðkomandi stjórnmálamenn hafi gjörtapað þorskastríðinu eftir á.   


Bloggfærslur 4. september 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband