Leita í fréttum mbl.is

Heimsendirinn sem ekki varð

Í síðustu viku voru þó nokkrir sem töldu að stór hætta væri á að heimurinn færist. Það er ekki nýtt af nálinni að menn spái heimsendi og má sjá dæmi um það í sögu trúarbragða fyrr og nú, og sömuleiðis koma fram kenningar í vísindum um að allt sé að farast. Fyrir um áratug var t.d. í gangi gríðarleg aðgerðanefnd til að ráðast gegn svonefndum 2000-vanda. Þá áttu allar skrifstofuvélar heimsins að stöðvast um aldamótin og jafnvel töluðu menn um kjarnorkuslys. Þegar til kastanna kom var vandinn ekki til staðar frekar en að heimurinn hafi farist í síðustu viku. Það er erfiðara að eiga við kenningar um að allt sé að fara fjandans til vegna gróðurhúsaáhrifa þar sem ýkt áhrif eiga að koma fram eftir áratugi en vera þá svo svakaleg að þau skerði búsetuskilyrði mannkynsins.
Sömu sögu má segja um margtuggðar ofveiðikenningar, en samkvæmt þeim virðist þorskstofninn vera nánast í útrýmingarhættu á Íslandsmiðum þrátt fyrir að sjaldan eða aldrei hafi verið minna veitt af honum síðustu 100 árin en einmitt núna og vöxtur hans sé í sögulegu lágmarki sem bendir eindregið til skorts á æti.
Staðreyndin er sú að hvergi í heiminum hefur tekist að klára einhvern fiskistofn og þar sem sannarlega hefur verið veitt margfalt umfram ráðgjöf, s.s. í Barentshafinu, dafnar þorskstofninn engu verr en áður.
Nú spá ýmsir mjög illa fyrir efnahagslífinu. Það er samt ekki rétt að dvelja of lengi við dómsdagsspár, leita frekar leiða út úr vandanum og setja um leið spurningarmerki við vonleysisráðgjöf sem hvergi hefur gengið eftir í heiminum.
Ónýtt tækifæri til að afla gjaldeyris felast í bættri nýtingu á fiskveiði- og orkuauðlindum, og síðast en ekki síst ferðaþjónustunni sem alltaf er að verða mikilvægari. Til að ráða niðurlögum verðbólgunnar er vísasta leiðin að afla meiri gjaldeyris en það myndi hífa upp íslensku krónuna og gera afborganir af erlendum lánum og vörum viðráðanlegri. Það að ætla að skipta um gjaldeyri og taka upp evru og reyna að ráðast á mein efnahagslífsins með því einu er hálfgerður barnaskapur en þegar jafnvægi er náð, búið að ná verðbólgunni niður, er skynsamlegt að fara þá leið.

Grein sem birtist í DV


Bloggfærslur 20. september 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband