Leita í fréttum mbl.is

Þarf að auka völd ráðherra?

Í dag varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að Kristján Möller, íbúi Fjallabyggðar, sló á þráðinn til mín.  Satt best að segja var ég feginn að heyra í Kristjáni en það gaf til kynna að eitthvert lífsmark væri með stjórnarþingmönnum og ráðherrum landsbyggðarinnar. Það er a.m.k. ekki að heyra að þeir hafi gert eitthvert veður yfir nýrri skýrslu Byggðastofnunar um byggðir í nauðvörn en fólksfækkunina má að stórum hluta rekja til alræmds kvótakerfis sem rænir byggðirnar atvinnuréttinum.

Erindi Kristjáns Möller var að koma á framfæri þeirri leiðréttingu, afar kurteislega þó, að skrif mín um að samgönguráðherra hefði eitthvað með þá ákvörðun að gera að leggja af Siglufjarðarflugvöll væru röng. Ég hafði ályktað út frá fréttum í 24 stundum og vefsíðunni Lífið á Sigló að ráðherra væri potturinn og pannan í þeirri ákvörðun að leggja niður flugvöllinn, enda var ákvörðunin tekin í samráði við Flugstoðir ohf. sem heyrir undir ráðherra. Það var að heyra á ráðherra að hann hefði ekkert með málið að gera frekar en hver annar íbúi Siglufjarðar og ég gat ekki heyrt betur en að hann væri mótfallinn því að leggja niður völlinn. 

Ég vil því nota tækifærið og biðja Kristján Möller afsökunar á því að hafa misskilið málið með þeim hætti að telja að samgönguráðherra hefði eitthvað með starfrækslu flugvalla að gera. Þetta mál hlýtur að vekja upp alvarlegar spurningar um hvort í fyrsta lagi ekki sé nauðsynlegt að auka völd samgönguráðherra þannig að hann hafi eitthvað með grundvallarmál að gera og síðan í öðru lagi hvort hið nýja opinbera hlutafélag Flugstoðir ohf. fari algerlega gegn ráðherra í málum sem snerta samgöngur í heimabæ ráðherra.


Bloggfærslur 27. júlí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband