Leita í fréttum mbl.is

Ofurlaunasamningar Samfylkingarinnar

Á sama tíma og Jóhanna Sigurðardóttir saup hveljur og náði vart andanum í ræðustól Alþingis af hneykslun yfir ofurlaunasamningum í þjóðfélaginu gerði Samfylkingin í Grindavík ofurlaunasamning við fyrrverandi bæjarstjóra, Ólaf Örn Ólafsson, sem virðist hafa verið ráðinn á svipuðum kjörum og forseti Íslands og mun betri en forsætisráðherra þjóðarinnar.

Eitthvað virðist sem umrædd launakjör hafi verið girnileg beita og svo góð að leiðtogi jafnaðarmannaflokksins hafi tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutanum til að geta sjálf sest í stólinn og makað krókinn, a.m.k. hefur hvergi komið upp kvittur um að um einhvern málefnaágreining hafi verið að ræða.

Umræddur samningur kom bæjarbúum í opna skjöldu, og jafnvel bæjarfulltrúum, enda er getið um sérkjör bæjarstjórans í einhverjum viðauka sem samþykktur er löngu eftir ráðningu bæjarstjórans.

Leiðtogi Samfylkingarinnar hefur verið drjúg við að skipa nýja sendiherra og jafnvel ráða ríkisforstjóra með ómálefnalegum hætti, eins og forstjóra Varnarmálastofnunar, og margir samfylkingarmenn hafa varið fyrrverandi REI-furstann sem vildi ekki skila opinberum gögnum. Líklegast er nú skynsamlegast fyrir almenning, ég tala ekki nú um blaðamenn, að grennslast fyrir um á hvaða ofurlaunum Samfylkingin hefur ráðið flokkshesta sína - og hvort einhverjir óvæntir viðaukar komi upp úr kafinu sem almenningur verður látinn punga út fyrir.


Bloggfærslur 15. júlí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband