Leita í fréttum mbl.is

Beitir Össur Sivjar bragði?

Nú stendur upp á Össur Skarphéðinsson að taka neðri hluta Þjórsár eignarnámi ef það á virkja Urriðafoss eins og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks stefnir ljóst og leynt að. Þórunn reynir að friða grænjaxlana í Samfylkingunni og nú er Össur karlinn á milli steins og sleggju. Það kæmi mér ekki á óvart, ef ég þekki kauða rétt, að hann reyndi með einhverju móti að smeygja sér úr þessari klípu og jafnvel nota sömu aðferð og Siv Friðleifsdóttir notaði þegar hún kom sér undan því að úrskurða í málefnum Þjórsárvera. Þá setti hún Jón Kristjánsson í verkið og gaf þá skýringu að hún hefði einhvern tímann tjáð sig efnislega um málið.

Ég var reyndar ekki sammála þeim skilningi á stjórnsýslulögum sem hún lagði upp með.

Það er allt eins líklegt að Össur reyni að fara sömu leið og Siv og segja sig vanhæfan í málinu þar sem hann hafi einhvern tímann bloggað um það. Sú aðferð gæti þó verið skrambi erfið fyrir Össur þar sem hann bloggar um flestallt með stórkarlalegum hætti.


Hvenær verður skot skeið?

Forsætisráðherrann var í dag að kvarta undan einelti fréttastofu Stöðvar 2 sem minnti á að Samfylkingin hefði ekki staðið við það kosningaloforð að aflétta þeim ósið að sendiherrar gætu jafnframt verið á fullum eftirlaunum. Fleiri fulltrúar ríkisstjórnarinnar kvörtuðu í blöðunum í dag, lærður aðstoðarráðherra skrifaði grein í 24 stundir um efnahagsmál og bjóst ég sannast sagna við lærðri grein um væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Því miður var því ekki að heilsa, heldur var hann að kvarta undan Framsóknarflokknum sem truflaði að einhverju leyti þá stefnu ríkisstjórnarinnar að gera ekki neitt.

Það sem ég hins vegar varð mjög hugsi yfir eftir að hafa hlýtt á viðtal við forsætisráðherrann í hádeginu var hversu hróðugur hann er yfir þeirri stefnu sinni í efnahagsmálum að gera ekki neitt. Hann hafði m.a.s. reiknað út gróðann af stefnunni sem var upp á þúsundir milljóna. Gróðinn fólst í því að björgunaraðgerðirnar fyrir bankana væru núna miklu ódýrari en þegar staðan var hvað verst. Það er hins vegar spurning hvað fyrirhyggjuleysið og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar hafi kostað þjóðarbúið nú þegar.

Það sem mér er núna hugleiknast - þegar forsætisráðherra talar um eitthvert verðbólguskot þótt verðbólgan hefur verið langt yfir markmiði stjórnvalda síðustu þrjú árin og nú stefnir í mjög mikla verðbólgu á þessu ári - er að vita hvenær skotinu léttir. Hvenær breytist verðbógluskot í verðbólguskeið?


Bloggfærslur 9. maí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband