Leita í fréttum mbl.is

,,Mannréttindaníðingar" - Samfylkingin bugtar sig og beygir

Á Alþingi féllu í dag stór orð þar sem Grétar Mar Jónsson sá ástæðu til að kalla Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Einar Kristin Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mannréttindaníðinga. Ástæðan fyrir reiði Grétars Mar var fádæmavesældarleg ræða Einars sem jafnframt var ósvífin.

Í ræðunni greindi Einar frá viðbrögðum stjórnvalda við úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en þau fólust annars vegar í því að skipa hóp þriggja lögfræðinga sem átti að vinna að svari til mannréttindanefndarinnar. Í hópnum eru Björg Thorarensen sem hefur þegar lýst þeirri afstöðu sinni að álitið skipti litlu máli og er eiginkona eins dómaranna í Hæstarétti sem úrskurðurinn beindist gegn, Karl Axelsson sem þjóðin þekkir sem lögfræðinginn á bak við fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar sem forsetinn neitaði að skrifa undir og síðan efnilegur lögfræðingur á þrítugsaldri, Arnar Þór Stefánsson. Hins vegar voru viðbrögðin þau að skipa nefnd sem átti að fara í það langtímaverkefni að fara í hugsanlega mögulega endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Vísað var til þess að umrætt verkefni væri í stjórnarsáttmálanum - en samt sem áður hefur ríkisstjórnin ekki drattast til að setja saman þessa nefnd. Það hefur ekki gerst þrátt fyrir að öllum hafi verið ljóst óréttlætið. Öllum er ljóst að Einar teygði bara lopann til þess að þurfa ekki að gera neitt.

Þingmenn Samfylkingarinnar, hinn aldni Ellert B. Schram og hinn ungi varaformaður, héldu vart vatni af hrifningu yfir ræðu sjávarútvegsráðherra og bugtuðu sig í allar áttir úr ræðustóli fyrir hinum vísa Einari. Ellert hrósaði ráðherranum innilega fyrir myndugleikann og Ágúst talaði um að það væri sérstakt ánægjuefni að til stæði að kanna hvaða áhrif fiskveiðistjórnunarkerfið hefði á byggðir landsins.

Ha?

Ég held að hann Ágúst ætti að fara hringinn í sumar með opin augun, hann hefði þó átt að vera löngu búinn að því.

Í kvöld hringdi í mig sjóari vestan af fjörðum sem er núna fluttur suður og hafði á orði að Samfylkingin væri orðin firrt, hún hefði ítrekað hátt og mótmælti sérstaklega hvalveiðum, veiðum á nokkrum hrefnum, en léti það síðan algjörlega óátalið - og jafnvel hrósaði sjávarútvegsráðherra fyrir það - að ætla að halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum.

Þetta er jafnaðarmannaflokkur Íslands. Hann hafði á orði, sjóarinn, að réttast væri að láta leikreglur stjórnvalda sem virtu mannréttindi að vettugi sem vind um eyrun þjóta. Hann vildi að íslenskir sjómenn réru til fiskjar 17. júní nk., á þjóðhátíðardaginn 2008.


Eini hleraði þingmaðurinn Árni Páll tók ekki þátt

Á Alþingi er það þannig eins og á öðrum góðum vinnustöðum að menn reyna að nýta þá þekkingu og reynslu sem þeir búa yfir til að leysa ólík verkefni. Á Alþingi er ekki óalgengt að þingmenn sem hafa reynslu úr heilbrigðisgeiranum, s.s. Ásta Möller og Þuríður Backman, og Katrín Fjeldsted á sínum tíma, einbeiti sér að málefnum þar að lútandi. Sjómenn Frjálslynda flokksins láta sig ekki vanta í umræður um sjávarútvegsmál.

Þess vegna kom á óvart að þegar Samfylkingin boðaði til sérstakrar utandagskrárumræðu um hleranir og sérstaklega var spurt hvort hleranir stæðu enn yfir skyldi ekki mæta til umræðunnar eini þingmaður þjóðarinnar sem hefur staðfest opinberlega að hann hafi verið hleraður. Við nánari rannsókn málsins bar hann því við að hann gæti ekki greint satt og rétt frá vegna einhvers þagnarskylduákvæðis um öryggismál þjóðarinnar. Nú hljóta að vera breyttir tímar, þingmaðurinn nýtur friðhelgi og varnarsamstarf og öryggismál eru allt önnur og gjörbreytt frá þeim árum þegar atburðurinn á að hafa átt sér stað. Varla geta þessar upplýsingar talist viðkvæmar. 

Það er spurning hvort framhald hafi orðið á umræðum utan þingfundar, kannski í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar, og þá öllu hreinskilnari og meira upplýsandi en hin opinbera.


Bloggfærslur 29. maí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband