Leita í fréttum mbl.is

Gott hjá Gulla

Ég verð að hæla gömlum blaðbera Þjóðviljans Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra fyrir að setjast niður með hjúkrunarfræðingum og fara yfir rök þeirra í vaktadeilunni illskiljanlegu.  Það var greinilegt að ráðherra var tilbúinn að gera fleira en gott þykir og setjast niður með þeim sem hafa haldið uppi harðri gagnrýni á störf hans.  Niðurstaðan af þessum viðræðum var sú að það náðist sátt um að leggja til hliðar umdeildar breytingar á vaktafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga á LSH.  Guðlaugur Þór hefur væntanlega orðið þess áskynja í viðræðunum í gærkvöld að það hefur verið eitthvað verið til í þeim málflutningi að stjórnendur LSH hafi nánast látið hjá líða að hafa samráð við hjúkrunarfræðinga um boðaðar breytingar.

Það væri óskandi að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni gætu tekið Guðlaug Þór sér til fyrirmyndar. Ég á þá sérstaklega við sjávarútvegsráðherra sem hefur þverskallast við að hlusta á málefnalega gagnrýni á núverandi óstjórn fiskveiða og jafnvel þó svo að kerfið hafi verið úrskurðað ósanngjarnt af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Vísindamenn sem hafa efast um ráðgjöf Hafró og hafa bent á að veiðin virðist minnka stöðugt eftir því sem uppbyggingarstarf stofnunarinnar heldur lengur áfram fá ekki einu sinni aðgang að vísindagögnum nema reiða fram háar upphæðir.


1. maí og mannréttindabrot stjórnvalda

1. maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, dagurinn sem alþýða manna hefur um áratugaskeið notað til að krefjast réttlátara þjóðfélags. Það er því vel við hæfi að óska landsmönnum öllum, hvar í stétt sem þeir skipa sér, til hamingju með daginn um leið og hugað er að inntaki baráttunnar um að gera Ísland að réttlátara þjóðfélagi.

Eitt af því sem hvílir eins og mara á íslensku þjóðfélagi er óréttlátt kvótakerfi sem hefur verið úrskurðað af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem ósanngjarnt og að það brjóti stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.

Það kemur verulega á óvart ef forystumenn íslenskrar verkalýðshreyfingar leggja ekki þunga áherslu á þessi mannréttindabrot stjórnvalda og krefjast í ávörpum dagsins breytinga til að gera íslenskt samfélag réttlátara.

Kvótakerfið byggir á vægast sagt vafasömum forsendum sem gengur í berhögg við viðtekna vistfræði en fellur einhverra hluta vegna hagfræðingum vel í geð þrátt fyrir að skila minni og minni afla á land. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort verkalýðshreyfingin hafi að leiðarljósi réttlæti og skynsemi í ávörpum sínum eða sé heft af hagfræðilegri bábilju sem hvílir á brauðfótum.


Bloggfærslur 1. maí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband